Innlent

Bjuggust við 2600 farþegum en reyndust vera tæplega 900

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna í dag. lögreglan

Umtalsvert færri farþegar lentu á Keflavíkuflugvelli í gær en höfðu áður bókað sér flug til landsins, það var viðbúið að sögn Páls Þórhallsonar verkefnisstjóra hjá forsætisráðuneytinu. Gert var ráð fyrir 2600 farþegum í Keflavík í gær en þeir reyndust á bilinu 800 til 900. Að sama skapi komu færri til landsins með Norrænu í gær en búist var við, en heildarfjöldi ferjufarþega var um 200 í dag. 

Páll sagði að breytingarnar á landamærunum sem tóku gildi í gær hafi gengið í stórum dráttum vel. Nýja fyrirkomulagið sé einfaldara, öll sem koma til landsins þurfa nú að fara í tvær skimanir og allt að sex daga sóttkví. Viðbúnaður landsins gegn kórónuveirunni sé í stöðugri endurskoðun en óvíst er hversu lengi þetta fyrirkomulag verður við lýði. 

Sem fyrr segir fækkaði farþegum nokkuð með breytingunum en Páll sagði að einhver dæmi væri jafnframt um það að fólk væri að lengja dvöl sína á Íslandi. Að sama skapi hafi verið eitthvað um það að farþegar hafi komið til Íslands en ákveðið að fljúga aftur heim þegar þeim var tjáð að þeir þyrftu að sæta sóttkví.

Þá greindi lögreglan á Austurlandi frá því að „örfáir“ farþegar sem komu með Norrænu í morgun virtust ekki hafa áttað sig á þeim reglum sem tóku gildi í gær. Farþegarnir hafi þannig farið í kjörbúð eftir komuna til landsins, en fólk í sóttkví má það ekki. „Virtust ekki átta sig fyllilega á reglunum og leituðu í kjörbúð eftir komu, en slíkt er þeim óheimilt. Afskipti voru höfð af þeim í kjölfar ábendinga starfsmanna og reglur við þá áréttaðar. Þeir virtust þá áttaðir og hugðust halda á dvalarstað,“ segir lögreglan.

Páll sagði að nú væri unnið í því að koma kynningarefni um breytingarnar á fleiri tungumál. Það væri þó ábyrgð flugfélaga að farþegar þeirra gangi frá forskráningu fyrir komuna til landsins. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×