Erlent

Allt að 21 milljón tonn af örplasti í At­lants­hafinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Allt að 21 milljón tonn örplasts gætu leynst í Atlantshafinu.
Allt að 21 milljón tonn örplasts gætu leynst í Atlantshafinu. Getty/ Andrey Nekrasov

Tólf til tuttugu og eitt milljón tonn af örplasti fljóta um í Atlantshafinu samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var á vegum Haffræðistofnunar Bretlands. Rannsóknarteymi síaði sjó niður á allt að 200 metra dýpi í miðju Atlantshafinu í rannsóknarleiðöngrum.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature Communications en fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins að þetta magn af plasti – 21 milljón tonn – gætu fyllt næstum þúsund gámaskip.

Dr. Katsia Pabortsava, frá Hafrannsóknarstofnun Bretlands, leiddi rannsóknina og segir hún að með því að mæla massa örplasts sem fundist hafi í efsta lagi sjávarins, sem nemur aðeins um 5% af dýpt hans, gæti teymið leitt líkur að því að magn plasts í öllu Atlantshafinu væri mun meira en áður hefði verið talið.

„Fyrir þetta höfum við ekki getað metið hversu mikið magn af plasti væri í sjónum. Það er vegna þess að við vorum ekki að mæla smæstu agnirnar,“ sagði hún.

Í leiðangrinum sem farinn var frá Bretlandseyjum niður til Falklandseyja, mældu hún og kollegar hennar allt að sjö þúsund örplasteindir í hverjum rúmmetra af sjó. Í hverju sýni var leitað að þremur mest notuðu, og mest hentu, tegundum plasts – fjöletýleni, fjölprópýleni og fjölstýreni – sem öll eru gjarnan notuð í plastumbúðir.

Teymið vonast til þess að niðurstöðurnar muni gagnast framtíðarrannsóknum á neikvæðum áhrifum örplasts á lífríki og umhverfið, með því að útvega nákvæmari mælingar á söfnun þess á afskekktum kimum hafsins.


Tengdar fréttir

Hreinsun langt komin í Hrísey

Hreinsunarstarf eftir frystihúsbruna í Hrísey er langt komið. Verktaki telur að allt í allt þurfi að flytja um 200 tonn af eyjunni. Talið er að kviknað hafi í frystihúsinu af mannavöldum.

Ormar sem éta plast

Ný rannsókn sýnir að ormar geta nýst vel til að eyða plasti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×