Innlent

Að­eins 170 fyrir­tæki sótt um lokunar­­styrki en búist var við 2000

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kringlan á fyrsta degi samkomubanns
Kringlan á fyrsta degi samkomubanns Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

170 umsóknir um lokunarstyrk hafa borist en upphaflega var gert ráð fyrir að um 2000 fyrirtæki gætu fallið undir úrræðið. 125 umsóknir hafa verið samþykktar og nema útgreiðslur alls 137 milljónum króna að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.

Gripið var til ýmissa aðgerða í mars í því skyni að verja grunnstoðir samfélagsins vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, til dæmis með hlutastarfaleið, viðbótarlánum, frestum skattgreiðslna, lokunarstyrkjum, greiðsluhléi lána, úttekt séreignarsparnaðar, styrkingu ferðaþjónustu og fleiri aðgerðum. „Yfirlit yfir úrræðin sýnir að þau hafa sannað gildi sitt og verið nýtt af fjölda einstaklinga og fyrirtækja,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Þá kemur fram að hátt í fjögur þúsund einstaklingar fengu greiddar hlutabætur í júlí en þeim hefur fækkað hratt á milli mánaða. Þann 13. ágúst höfðu alls verið greiddir út rúmir 18 milljarðar króna vegna hlutabótaleiðarinnar. Atvinnuleysi jókst þá lítillega milli júní og júlímánaðar.

Umsóknum frá einstaklingum um endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis hefur fjölgað mikið frá fyrra ári en endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu vegna nýbyggingar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði var hækkað úr 60 prósentum í hundrað prósent og endurgreiðsluheimildir voru jafnframt víkkaðar út.

Þann 10. ágúst höfðu 14,5 milljarðar króna verið greiddir út í séreignarsparnaðarleiðinni vegna Covid-19 til tæplega sjö þúsund einstaklinga. Alls höfðu 136.555 einstaklingar sótt ferðagjafir og 948 fyrirtæki skráð sig til þátttöku. Um 76 þúsund einstaklingar hafa nýtt sínar gjafir hjá 759 fyrirtækjum. Að meðaltali hafa um tvö þúsund gjafir verið nýttar daglega.


Tengdar fréttir

Öllum starfsmönnum b5 sagt upp

Öllum starfsmönnum skemmtistaðarins b5 hefur verið sagt upp vegna erfiðrar fjárhagslegrar stöðu staðarins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×