Innlent

Hættir sem sveitarstjóri og verður bæjarstjóri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Elías Pétursson, fráfarandi sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Elías Pétursson, fráfarandi sveitarstjóri Langanesbyggðar. vísir/friðrik

Elías Pétursson hættir sem sveitarstjóri Langanesbyggðar eftir tæplega sex ára starf. Hann færir sig um set og tekur við starfi bæjarstjóra Fjallabyggðar frá og með 9. mars næstkomandi.

Elías segir að tilboðið frá Fjallabyggð hafi einfaldlega verið of gott til að hafna. Hann þakkar sveitungum sínum í Langanesbyggð fyrir samfylgdina undanfarin fimm ár og segir samstarfið við starfsfólk sveitarfélagsins hafa verið ánægjulegt.

„Án þeirra framlags hefði ekki verið mögulegt að ná þeim árangri sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins né heldur að standa að nauðsynlegri uppbyggingu innviða samfélagsins hér við ysta haf,“ segir Elías.

Oddviti sveitarstjórnar Langanesbyggðar, Þorsteinn Ægir Egilsson, lætur hafa eftir sér í tilkynningu vegna starfslokanna að Elías hafi verið ötull í starfi. Hann óskar Elíasi alls hins besta í framtíðinni. „Þrátt fyrir þessi skil munu opnast ný tækifæri fyrir báða aðila sem vonandi verða öllum til heilla.“

Sem fyrr segir mun Elías hefja störf fyrir Fjallabyggð þann 9. mars næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Fjallabyggð.


Tengdar fréttir

Norðausturhringurinn lagður bundnu slitlagi

Átak hefst í sumar við að byggja upp þjóðveginn um Langanesbyggð, milli Þórshafnar og Bakkafjarðar. Sveitarstjórinn segir þetta mjög ánægjulegar vegarbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×