Erlent

Engar sannanir fyrir aðkomu Sýrlands að dauða Hariri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá dómsuppkvaðningunni.
Frá dómsuppkvaðningunni. AP/Piroschka Van De Wouw

Engar sannanir eru fyrir því að forsvarsmenn Sýrlands eða Hezbollah-samtakanna hafi látið myrða Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanon, þó þessir aðilar hafi talið sig hagnast á dauða hans. Dómsuppkvaðning sérstaks dómstóls stendur nú yfir í Hollandi en dómurinn er 2.600 blaðsíður og lesturinn mun taka margar klukkustundir.

Hariri var myrtur í sprengjuárás í Beirút árið 2005. Auk hans dó 21 til viðbótar og um 220 manns særðust. Miklu magni sprengiefna hafði verið komið fyrir í sendiferðabíl sem sprengdur var í loft upp þegar bílalest Hariri var ekið þar fram hjá.

Eins og segir í frétt Reuters, sprengdi maður sig í loft upp með bílnum en aldrei hefur tekist að bera kennsl á hann.

Sérstakur dómstóll sem myndaður var í Hollandi og af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur haft málið til meðferðar um árabil. Fjórir menn sem taldir eru hafa verið meðlimir Hezbollah voru ákærðir fyrir árásina. Þeir heita Salim Jamil Ayyash, Hassan Habib Merhi, Hussein Hassan Oneissi og Assad Hassan Sabra. Ekki er vitað hvar þeir eru niðurkomnir.

Þá er ekki búið að kveða upp dóm mannanna.

Farsímagögn sína að þeir fjórir fylgdust náið með ferðum Hariri í aðdraganda árásarinnar.

Verjendur mannanna, sem voru skipaðir af dómstólnum, segja engin sönnunargögn um að þeir hafi komið að árásinni sjálfri og að réttast væri að sýkna þá.

Einn maður til viðbótar, Mustafa Amine Badreddine, foringi í Hezbollah, var einnig ákærður en nafn hans var tekið af ákærunni eftir að hann féll í Sýrlandi árið 2016.

Vegna árásarinnar þurftu yfirvöld Sýrlands, sem studdu Hezbollah, að kalla sveitir sínar frá Líbanon en þær höfðu verið þar í 29 ár. Bæði Sýrlendingar og forsvarsmenn Hezbollah þvertóku fyrir að hafa komið að árásinni.

Sonur Hariri varð í kjölfarið forsætisráðherra Líbanon og sat þrjú kjörtímabil.

Bein útsending frá dómsuppkvaðningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×