Erlent

Tveir þriðju íbúa heimsins gætu smitast af Wuhan-veirunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Hong Kong sem er eitt af þeim löndum þar sem veiran hefur greinst.
Frá Hong Kong sem er eitt af þeim löndum þar sem veiran hefur greinst. vísir/getty

Gabriel Leung, prófessor og forseti lýðheilsusviðs í Hong Kong-háskóla og einn helsti sérfræðingur Hong Kong í sóttvarnalækningum, telur að um tveir þriðju hlutar mannkyns, eða alls 60 prósent, gætu smitast af Wuhan-veirunni, takist ekki að halda veirunni í skefjum.

Rætt er við Leung í umfjöllun á vef Guardian í dag. Þessi viðvörun prófessorsins kemur í kjölfar þess að yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO), Tedros Adhanom Ghebreyesus, sagði að staðfest smit hjá einstaklingum sem hafa aldrei heimsótt Kína gætu verið „toppurinn á ísjakanum.“ Þannig gætu mun fleiri verið smitaðir af veirunni en hafa greinst með hana.

Leung segir við Guardian að mikilvægasta sé að fá svar við spurningunni hversu stór og mikill þessi ísjaki er. Flestir sérfræðingar telja að hver smituð manneskja geti smitað tvær til þrjár aðrar manneskjur. Út frá þeirri tölu fá vísindamenn 60 til 80 prósent allra íbúa jarðar.

„Sextíu prósent af öllum íbúum jarðar er mjög há tala,“ segir Leung og bætir við að jafnvel þótt að aðeins eitt prósent smitaðra léti lífið af völdum veirunnar yrði mannfallið gríðarlegt.

Leung verður á fundi um veiruna og stöðu mála vegna hennar sem haldinn verður hjá WHO í dag. Hann segir aðalmálið nú sé útbreiðsla veirunnar um heiminn og fjölgun smitaðra en þá sé einnig  mikilvægt að skoða hvort þær hörðu aðgerðir sem Kínverjar hafa gripið til svo hindra megi útbreiðsluna hafi virkað. Ef svo er ættu aðrar þjóðir að íhuga að grípa til svipaðra aðgerða.

Meira en þúsund manns hafa nú dáið af völdum veirunnar sem á uppruna sinn í borginni Wuhan í Kína. Þá hafa meira en 42 þúsund manns smitast af veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×