Erlent

Á­kæra mann fyrir morðið á blaða­konunni Lyru McKee

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 29 ára Lyra McKee var skotin til bana þann 18. apríl síðastliðinn þar sem hún fylgdist með óeirðum í Londonderry.
Hin 29 ára Lyra McKee var skotin til bana þann 18. apríl síðastliðinn þar sem hún fylgdist með óeirðum í Londonderry. Getty

Lögregla á Norður-Írlandi hefur ákært 52 ára karlmann vegna morðsins á blaðakonunni Lyru McKee í Londonderry á síðasta ári. Maðurinn er einnig ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð og þátttöku í bannlýstum samtökum.

Hin 29 ára McKee var skotin til bana þann 18. apríl síðastliðinn þar sem hún fylgdist með óeirðum í borginni.

Hinn ákærði er frá Derry og verður leiddur fyrir dómara síðar í dag. Jason Murphy hjá lögreglunni í Londonderry segir að nokkrir einstaklingar hafi verið í slagtogi með ákærða umrætt kvöld og að rannsókn standi enn yfir.

Fyrr í vikunni voru fjórir handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga í tengslum við rannsóknina á morðinu á Lyru McKee, þar á meðal hinn ákærði. Hinir eru 20, 27 og 29 ára gamlir.

Nýi írski lýðveldisherinn hefur lýst yfir ábyrgð á morðinu, en fullyrðir að sá sem skaut hafi ætlað sér að skjóta að lögreglu.

Nýi írski lýðveldisherinn var stofnaður árið 2012 og samanstendur af meðlimum írska lýðveldishersins sem ekki voru sáttir við friðarsamkomulagið sem gert var á Norður-Írlandi árið 1998.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×