Sport

Wang sló Serenu Williams óvænt út og ferill þeirrar dönsku á enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tárin runnu hjá Caroline Wozniacki eftir síðasta leik ferilsins í nótt.
Tárin runnu hjá Caroline Wozniacki eftir síðasta leik ferilsins í nótt. Getty/Clive Brunskill

Bandaríska tenniskonan Serena Williams vinnur ekki 24. risatitil sinn á Opna ástralska mótinu í tennis því hún datt óvænt úr leik í nótt.

Kínverjinn Wang Qiang vann þá hina 38 ára gömlu Serenu Williams, 6-4 6-7 (2-7) 7-5, þegar þær mættust í þriðju umferð mótsins.


Serena Williams gerði sig seka um mikið af mistökum í þessum leik og talaði sjálf um að „að atvinnumaður eigi ekki að geta gert svo mörg mistök“ og hún tilkynnti jafnframt að hún ætli strax á æfingu á morgun.

Wang Qiang er 28 ára gömul og í 27. sæti heimslistans. Þegar þær mættust á Opna bandaríska meistaramótinu í september á síðasta ári þá tók það Serenu aðeins 44 mínútur að vinna hana. Nú var mótstaðan allt önnur.

Serena Williams vann síðasta mótið sem fór fram fyrir Opna ástralska en hefur ekki unnið risamót síðan í Ástralíu árið 2017. Þá var hún komin átta vikur á leið. Hún ætlar sér enn að vinna 24. risatitilinn.  „Annars væri ég ekki á mótaröðinni,“ sagði Serena Williams.


Ferill hinnar dönsku Caroline Wozniacki er á enda eftir að hún datt út á móti Ons Jabeur frá Túnis. Ons Jabeur vann leik þeirra 7-5 3-6 7-5.

„Þetta er búið að vera frábært ferðalag. Það var við hæfi að lokaleikurinn hafi verið jafn og ég hafi endaði á því að gera mistök í forhandarhöggi. Ég hef verið að vinna í því að bæta það allan minn feril,“ sagði Caroline Wozniacki í gríni eftir leik.

Hin 29 ára gamla Caroline Wozniacki var búin að tilkynna það löngu fyrir mótið að hún myndi spila sinn síðasta tennisleik á Opna ástralska mótinu þar sem hún vann sinn eina risatitil.

Caroline Wozniacki náði því að vera á toppi heimslistans í 71 viku á ferlinum, vann 30 mót og vann sér inn næstum því 4,4 milljarða íslenskra króna í verðlaunafé.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.