Erlent

Taí­lenska lög­reglan seldi borgara bíl fullan af am­feta­míni

Eiður Þór Árnason skrifar
Hér má sjá svonefndar Yaba töflur sem svipar til þeirra sem fundust í bifreiðinni.
Hér má sjá svonefndar Yaba töflur sem svipar til þeirra sem fundust í bifreiðinni. Getty/Barcroft Media

Eiganda notaðrar bifreiðar sem keypt var á uppboði hjá taílensku lögreglunni brá heldur í brún þegar hann fann mikið magn vímuefna í bílnum stuttu eftir kaupin.

Um var að ræða bifreið að gerð Honda CR-V en umræddur bíll var gerður upptækur í tengslum við fíkniefnamál á síðasta ári.

Efnin uppgötvuðust þegar eigandinn sendi hann á verkstæði þar sem bifvélavirki fann 94 þúsund töflur sem reyndust innihalda blöndu af metamfetamíni og koffeini. Töflurnar fundust í leynilegu hólfi bak við stuðara bílsins.

Að sögn yfirvalda var þegar búið að leita af efnum í bílnum í samræmi við verklag lögreglu.

Lögreglan segist ætla að framkvæma ítarlegri leit í bifreiðum áður en þær eru seldar í framtíðinni til þess að reyna að koma í veg fyrir að atvikið endurtaki sig.

Áður hafði lögregla fundið 100 þúsund álíka töflur í aftursæti sömu bifreiðar. Nýr eigandi og bifvélavirkinn sem fann töflurnar munu hljóta fundarlaun fyrir samvinnu sína við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×