Innlent

Skilur ekki af hverju stofnuð var nefnd vegna snjó­flóðanna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í ofanflóðasjóði.
Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í ofanflóðasjóði.

Stjórnarmaður í ofanflóðasjóði gagnrýnir að ríkisstjórnin skuli stofna nefnd vegna snjóflóðanna. Aðeins þurfi að prenta út áætlanir ofanflóðasjóðs.

Rætt var um málefni ofanflóðasjóðs á Sprengisandi í morgun. Þar gagnrýndi Halldór Halldórsson stjórnarmaður í ofanflóðasjóðs harðlega að ríkistjórnin hefði skipað sérstaka nefnd til að fara yfir málefni ofanflóðasjóðs. 

„Já, það er nefndin sem á að yfir hvernig fjármunum verði varið. Ég skil ekki þessa nefnd. Af hverju fengum við ekki bara tölvupóst í ofanflóðasjóði, við hefðum getað prentað út skjalið sem við erum að vinna með,“ sagði Halldór.

„Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Það liggur alveg ljóst fyrir hvaða verkefni bíða, hvaða verkefni eru eftir, hvaða verkefni er hægt að bjóða út á morgun, hvaða verkefni er hægt að bjóða út á næsta ári og svo restina 2022. Nefndin getur bara fengið útprentun og þá er hennar vinnu lokið. Ég skil ekki, þetta lýsir einhverri ákvarðanafælni.“

Halldór sagði að stjórnvöld hafi brugðist þegar kemur að snjóflóðavörnum.

„Húseigendur á Íslandi eru að borga tæpa þrjá milljarða á ári í ofanflóðasjóð en það bara verið að nýta einn milljarð á ári og búið að vera þannig í ansi mörg ár. Ég held þetta sé „þetta reddast-hugarfarið“, kæruleysi og gleymska sem hefur orðið þess valdandi að það er ekki verið að nýta þessa fjármuni. Ástæðan er ekki þekkingarskortur á Íslandi,“ sagði Halldór.

„Það er bara ein ástæða fyrir þessu og hún er sú að Alþingi og ríkisstjórn hafa verið með „þetta-reddast hugarfarið. En þetta reddast ekki neitt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×