Sport

Sara gat ekki æft í átta daga vegna veikindanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir.
Sara Sigmundsdóttir. Mynd/Instagram/sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir fær sem betur fer nógan tíma til að koma til baka eftir langvinn veikindi í upphafi nýs árs.

Sara hefur fyrir löngu tryggt sér farseðilinn á heimsleikana í CrossFit í ágúst og getur því miðað allar æfingar sínar við það að toppa í haust.

Sara er í raun kominn fjórum sinnum inn á leikana, bæði með því að vinna „The Open“ og vera efst íslensku stelpnanna í „The Open“ en einnig með því að vinna CrossFit mót á Írlandi og í Dúbaí sem verðlaunuðu sigurvegarann með sæti á heimsleikunum.

Eftir þessar frábæru vikur og mánuði þar sem engin í heiminum gat stoppað sigurgöngu Söru þá varð hún á endanum að gefa eftir þegar hún fékk slæma flensu í byrjun nýs árs.

Sara sagði frá því á Instagram síðu sinni að vegna flensunnar hafi hún ekki getað æft í átta daga. Fyrir íþróttakonu sem æfir jafn mikið og Suðurnesjamærin þá eru átta daga fjarvera frá lyftingasalnum mjög langur tími.

Góðu fréttirnar eru að Sara er kominn aftur af stað eins og mátti sjá á samfélagsmiðlum hennar í gær.

Sara hélt upp á endurkomu sína með því að baka uppáhaldskökurnar sínar.  Hún þurfti hins vegar að passa upp á að þær pössuðu inn í næringarforritið hennar og eftir að hafa sett inn allar upplýsingar um innihald fékk hún að vita hversu margar hún mátti borga. Það fylgdi þó ekki sögunni hversu margar þær voru.

Sara sagði líka frá því að síðunni sinni að hún muni ekki taka þátt í Strenght in Dept CrossFit mótinu í ár. Mótið fer fram í London í febrúar en Sara vann það með glæsibrag í fyrra.














Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×