Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 1-0 | Valsmenn komnir með fimm stiga forystu

Atli Freyr Arason og Andri Már Eggertsson skrifa
Kristinn Freyr sá til þess að Valur landaði öllum þremur stigunum í dag.
Kristinn Freyr sá til þess að Valur landaði öllum þremur stigunum í dag. Vísir/Daniel Thor

Pepsi Max deildin er aftur komin á fullt flug eftir stutta covid pásu. Deildin hófst aftur formlega með tveimur leikjum í gær og í dag voru aðrir tveir leikir á dagskrá. Á Hlíðarenda tóku Valsmenn á móti KA-ingum í annars frekar rólegum leik sem lauk með 1-0 sigri heimamanna.

Valur skoraði eina mark leiksins á upphafs mínútum leiksins og féll það í hlut Kristins Freys að setja knöttinn í netið eftir hræðileg mistök hjá Rodrigo í vörn Akureyringa. Reyndi hann í tvígang að hreinsa boltann í burtu en í seinni hreinsuninni leggur Rodrigo boltann snyrtilega fyrir Kristinn sem þakkar fyrir sig með sigurmarki leiksins strax á fimmtu mínútu. 

Tíu mínútum síðar smellir Sigurður Egill boltanum í stöngina á marki Kristijan Jajalo hjá Akureyringum eftir fallega sókn piltanna frá Hlíðarenda. Að því loknu tóku Norðanmenn öll völd á leikvellinum án þess að nýta sér það á síðasta þriðjungi Valsmanna. KA-ingar vildu meðal annars fá vítaspyrnu á 20. mínútu þegar Hannes Þór Halldórsson [markvörður Vals] heldur í Guðmund Stein Hafsteinsson um stundarsakir þegar Guðmundur er nánast búinn að vinna boltann af markverðinum.

Svipaða sögu var svo að segja af seinni hálfleiknum. Þar koma Akureyringar grimmari út úr búningsherbergjum en aftur án þess að setja mark á Valsara. Besta færi síðari hálfleiks féll þó í fætur Arons Bjarnasonar sem skaut knettinum hátt yfir markið er hann var nánast einn gegn opnu marki, eftir flotta fyrirgjöf Kaj Leo af vinstri kantinum. 

KA vildi svo aftur fá vítaspyrnu á 68 mínútu þegar Ívar Örn og Rasmus Christiansen lentu í samstuði innan vítateigs Vals en Einar Ingi hafði lítinn áhuga á því að dæma vítaspyrnu, eins og áður.

Akureyringar voru líklegri til að skora það sem eftir lifði leiks en Valsmenn náðu á einhvern hátt að kyrkja út jafntefli í kvöld.

Af hverju vann Valur?

Það má skrifa að einhver heppnis stimpill hafi verið yfir sigri Valsmanna í dag. Flestir bjuggu við öruggum sigri heimamanna en það er ekki erfitt að finna einhver rök sem segja að Norðanmenn hefðu átt að fá eitthvað úr þessum leik. Valsmenn gera þó vel að halda KA-ingum í skefjum.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Freyr skoraði sigurmarkið í leiknum og fær hann hrós fyrir það. Eiður Aron spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik í sumar og stóð hann vakt sína vel í vörn Valsara.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur KA-inga á síðasta þriðjungi. Akureyringar voru að spila vel á stórum köflum í leiknum og einnig að koma sér í hættuleg færi án þess þó að ógna marki Hannesar að einhverju viti.

Hvað gerist næst?

Valsarar sitja nú sem fastast einir á toppi deildarinnar bæði á heildar stigum og í stigum fenginn á hvern leik. Valsarar hafa því tekið fram úr Stjörnunni í þessu síðarnefnda með 2,20 stigum að meðaltali á leik en Stjarnan er einungis með 2,14 stig á leik að meðaltali. Þannig kæmi til þess að Covid myndi setja deildina á ís frá og með morgundeginum þá hafa Valsmenn vinninginn yfir Stjörnuna. Valsmenn eiga næst bikarleik gegn ÍA á þriðjudaginn næsta áður en þeir spila við Íslandsmeistara KR á Meistaravöllum næstu helgi.

Hjá Norðanmönnum er staðan aðeins frábrugðin. KA-ingar eru aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni og eiga næst leik við Skagamenn á Greifavellinum eftir viku. Akureyringar geta þó huggað sig við að hafa aðeins fengið 1 mark á sig í fyrstu fjórum leikjum Arnars í deildinni eftir að hafa spilað við Val, FH, KR og Gróttu.

Arnar Grétarsson: Menn gera mistök í fótbolta

„Ég hef ekki séð markið aftur en einsog fótboltinn er þá gera menn mistök. Þetta atvik var klaufalegt sem við áttum að koma í veg fyrir. Það komu nokkur atvik hjá okkur í fyrri hálfleik sem við erum með boltann og ætlum að spila út. Það gekk ekki sem leiddi með að Valur var að fá færi sem við vorum að setja upp fyrir þá sem er svekkjandi og gerir leikinn erfiðari fyrir okkur,” sagði Arnar svekktur hvernig hans liði spiluðu fyrri hálfleikinn.

„Við vorum mikið með boltann og fengum nokkrar góðar stöður á vellinum en þó voru þetta bara stöður sem hefðu getað skapað dauðafæri sem komu ekki. Ég var bara ánægður með seinni hálfleikinn við settum þá undir pressu þó ég vill að síðasta sendingin til að fá dauðafæri komi í leiknum en það var það sem vantaði upp á”, sagði Arnar einnig.

KA vildi fá vítaspyrnu oftar en einu sinni en þá var það helst atvik þegar Rasmus Christiansen virtist hrynja á leikmann KA.

„Ég sá ekki atvikið en mér var sagt eftir að menn hefðu séð þetta á myndskeiði að þetta átti að vera víti sem er ennþá meira svekkjandi ef svo reynist rétt, svona er fótboltinn þú færð sumt en svo hallar á móti þér líka, það hefur verið talsvert mikið af svona atvikum sem við áttum að fá en við fengum ekki,” sagði Arnar og bætti við að þetta hefði ekki verið víti vegna þess að það var ekki dæmt.

Heimir Guðjónsson tók við Val síðasta haust eftir tveggja ára dvöl í Færeyjum.vísir/s2s

Heimir: Þetta var erfitt en ánægður með stigin

„Við vorum slakir í dag, við vissum það alveg fyrir leik að KA liðið er gott sem hefur bætt sig mikið eftir að Arnar tók við liðinu. Þeir eru vel skipulagðir og við náðum lítið að opna þá en þó datt þetta með okkur í þetta skiptið sem hægt er að gleðjast yfir,” sagði Heimir að leik loknum.

„Þetta var of hægt, boltinn gekk hægt á milli manna þeir áttu að sleppa milli sendingunum og varnarlega vorum við ekki nógu nálægt mönnunum okkar, þeir náðu oft að spila sig út úr pressunni okkar og spila sig úr stöðu þegar við áttum möguleika á að loka þá inni og vinna boltann,” sagði Heimir og bætti við að hann tekur þó glaður við stigunum þremur.

Valur á leik í bikarnum á þriðjudaginn á móti ÍA, síðan heldur deildin áfram í kjölfarið Heimir var ekki ákveðinn hvort hann ætli að breyta til í liðinu og nota breiddina eða halda sér við liðið, það er æfing hjá Vals liðinu í fyrramálið og þá verður staðan tekin.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.