Sport

Dagskrá: Meistaradeildin snýr aftur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr fyrri leik Manchester City og Real Madrid.
Úr fyrri leik Manchester City og Real Madrid. Burak Akbulut/Getty Images

Enginn íslenskur fótbolti að svo stöddu en Meistaradeild Evrópu snýr aftur í kvöld. Tveir leikir í 16-liða úrslitum eru á dagskrá og þeir eru ekki af verri endanum.

Á Stöð 2 Sport verður leikur Juventus og Lyon í beinni útsendingu klukkan 18.50 en Lyon vann fyrri leik liðanna 1-0. Cristiano Ronaldo og félagar þurfa því svo sannarlega að bíta í skjaldarrendur í kvöld og sýna hvað í þeim býr.

Ronaldo ætti að vera vel úthvíldur en hann lék ekki með Juventus er nífaldir Ítalíumeistarar töpuðu fyrir Roma í síðustu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Á stöð 2 Sport 2 verður svo leikur Manchester City og Real Madrid í beinni útsendingu á sama tíma. Lærisveinar Pep Guardiola unnu nokkuð óvæntan 2-1 sigur á Spánarmeisturunum í Madrid og því þurfa menn Zinedine Zidane að spila til sigurs í kvöld.

Fyrirliðinn Sergio Ramos verður ekki með Madrid í kvöld þar sem hann nældi sér í rautt spjald í fyrri leik liðanna.

Að leik loknum verða svo Meistaradeildarmörkin þar sem farið verður yfir leiki kvöldsins. Kjartan Atli Kjartansson sér um þau að þessu sinni.

Hér má sjá dagskrá Stöðvar 2 Sport.

Hér má sjá hvað er framundan í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×