Sport

Einn besti snóker­spilarinn fær það ó­þvegið frá dóttur sinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronnie á Opna mótinu í Wales fyrr á þessu ári.
Ronnie á Opna mótinu í Wales fyrr á þessu ári. vísir/getty

Ronnie O'Sullivan er einn besti snókerspilari í heimi. Í nýju viðtali við The Sun greinir hins vegar dóttir hans frá því að hann hitti hana ekki né vilji tala við hana. Hann vilji heldur ekki hitta nýfætt afabarn sitt.

Taylor-Ann Magnus er 23 ára en Ronnie eignaðist Magnus með Sally-Ann Magnus sem hann var í sambandi með árið 1996. Það samband stóð þó stutt yfir.

Taylor-Ann hefur einungis hitt pabba sinn tólf sinnum á lífsleiðinni og nýfætt afabarn sitt hefur hann enn ekki hitt.

„Hann er kannski heimsmeistari en er ekki einhver sem ætti að láta kalla sig pabba, hvað þá afa,“ sagði Taylor-Ann í samtali við The Sun.

„Zarah-Ann mun alast upp við það að vita ekkert hver hann er. Hann hefur gefið svo mörg loforð en það sem hann segir og hvað hann svo gerir er allt annað.“

„Ég hafði alltaf vonast eftir meira og nánari sambandi við pabba minn og ég hef verið að bíða eftir því allt mitt líf.“

„Þegar ég sagði honum að ég væri ólétt þá kom smá áhugi frá honum. Vinur hans hringdi nokkrum sinnum í mig og sagði að hann væri spenntur yfir því að verða afi.“

„Ég hefði átt að vita betur en að vonir mínar hafi stigið upp úr öllu. Hann sagði við blaðamenn að honum finndist það sorglegt að við værum ekki náin og sagðist hlakka til að sjá dóttir mína en það var bara það. Það var bara sýning [e. show],“ sagði Taylor.

Heismeistaramótið í snóker fer nú fram þar sem Ronnie er að sjálfsögðu með. Hann hefur unnið mótið fimm sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×