Erlent

Leiðtogar heimsins hafi gefist upp á að bæta framtíð komandi kynslóða

Sylvía Hall skrifar
Greta Thunberg er verulega ósátt við aðgerðaleysi í loftslagsmálum.
Greta Thunberg er verulega ósátt við aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Vísir/EPA

Greta Thunberg og aðrir aðgerðasinnar birtu í dag opið bréf til leiðtoga heimsins þar sem kallað er eftir því að þeir fari að líta á loftslagsvandann sem alvöru ógn við mannkynið. Þau segja fólk í valdastöðum nánast hafa gefist upp á því að leita leiða til þess að bregðast við vandanum.

Þúsundir skrifa undir bréfið, þar á meðal vísindamenn, hagfræðingar og leikarar, sem var sent til leiðtoga Evrópuríkja og annarra þjóðhöfðingja. Í bréfinu segir Thunberg að Evrópusambandið beri mikla ábyrgð í baráttunni við loftslagsvandann, enda hafi Evrópuþjóðir skuldbundið sig til þess að leiða þær breytingar sem áttu að verða við undirritun Parísarsamkomulagsins.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins mun hittast á föstudag til þess að ræða næsta björgunarpakka sambandsins og er ekki ólíklegt að bréfið hafi verið birt til þess að hvetja embættismenn þess til umhugsunar.

Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C á þessari öld, og helst 1,5°C, til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga sem ógna lífríki jarðar og samfélögum manna.

Í bréfinu eru settar fram sjö kröfur. Til að mynda er farið fram á að hætta öllum fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti og hverfa frá notkun þess, að Alþjóðaglæpadómstóllinn viðurkenni vistmorð sem refsivert afbrot og að horfa á loftslagsvandann sem raunverulegt neyðartilfelli. Þá þurfi einnig að standa vörð um lýðræðið svo fátt eitt sé nefnt.

Leiðtogar heimsins gagnrýndir harðlega í bréfinu og þeir sakaðir um að hafa aldrei litið á loftslagsvandann sem raunverulegt vandamál. Á meðan ríki væru að draga lappirnar í umhverfismálum væri heimsbyggðin að tapa dýrmætum tíma.

„Auðvitað fögnum við sjálfbærum fjárfestingum og stefnumálum, en ekki halda í eina sekúndu að það sem þið hafið rætt hingað til verði næstum því nóg. Við þurfum að horfast í augu við heildarmyndina.“


Tengdar fréttir

Stefna að kolefnishlutleysi Evrópu fyrir 2050

Umhverfisverndarsinnar lýsa vonbrigðum með loftslagslög sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti á fundi í dag og telja þau ekki ganga nógu langt. Markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 verður fyrir sambandið sem heild, ekki einstök aðildarríki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×