Innlent

Mörg dæmi um að fólki sé sagt upp eftir að hafa greinst með heilabilun

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Mörg dæmi eru um að vinnuveitendur segi upp starfsfólki eftir að það greinist með heilabilun. Fræðslustjóri Alzheimersamtakanna segir gríðarlega mikilvægt að vinnuveitendur komi til móts við fólkið til að koma í veg fyrir félagslega einangrun.

Áætlað er að um fimm þúsund manns séu með greiningu um heilabilun á Íslandi og er Alzheimersjúkdómurinn algengastur.

Sigurbjörg Hannesdóttir, fræðslustjóri Alzheimersamtakanna segir að eftir að fólk fær greiningu sé lítið sem ekkert sem taki við.

„Fólk kemur til okkar og bara hvað svo? Hvaða meðferðir eru í boði? Manneskja sem er ekki farin að sýna mikil einkenni, þá eru ekki úrræði í boði. Það er fyrst að þú getur nýtt þér sérhæfða dagþjálfun en þarna þegar þú ert nýgreindur þá er ekkert. Svo spyr fólk: hvernig á ég að segja vinnuveitanda mínum frá þessu?,“ segir Sigurbjörg Hannesdóttir, fræðslustjóri Alzheimer samtakanna.  

Það reynist fólki mjög erfitt að tilkynna vinnuveitanda um greininguna. Dæmi sé um að fólki sé sagt upp eftir að það greinist.

„Ég hef heyrt töluvert mörg dæmi um það. Þetta er ekki illska heldur er þetta bara fáfræði.  sumar stöður getur maður vissulega ekki unnið áfram. Til dæmis ábyrgðarstöður. Þá verður maður að einfalda en það er oft hægt að finna aðrar stöður og aðlaga,“ segir Sigurbjörg. 

Samtökin vilja vekja athygli á málinu enda gríðarlega mikilvægt að fólk með heilabilun einangrist ekki.

„Það er svo mikilvægt að halda áfram lífi sínu þó maður fái þennan sjúkdóm. Öll höfum við hlutverk í lífinu og við viljum gefa af okkur og þiggja og að vera tekin úr vinnu of snemma getur haft mikil áhrif á sjálfsmynd fólks,“ segir Sigurbjörg. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×