Innlent

Vilja reisa fram­tíðar­hús­næði LHÍ í Vatns­mýri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nemendur LHÍ sem stunduðu nám í húsnæði skólans við Sölvhólsgötu efndu til mótmæla fyrir nokkrum árum vegna slæms aðbúnaðar og myglusvepps í húsinu.
Nemendur LHÍ sem stunduðu nám í húsnæði skólans við Sölvhólsgötu efndu til mótmæla fyrir nokkrum árum vegna slæms aðbúnaðar og myglusvepps í húsinu. Vísir/vilhelm

Vatnsmýri er ákjósanlegasta staðsetningin fyrir framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands samkvæmt frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins. Niðurstöður úr henni voru kynntar á mánudag.

Listaháskólinn hefur glímt við húsnæðisvanda um árabil en starfsemi hans er dreifð um fjögur hús í tveimur póstnúmerum. Ráðist var í frumathugun á húsnæðismálum skólans að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, kynnti niðurstöðurnar fyrir fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, rektor og starfsfólki LHÍ, Hollnemafélagi skólans og borgarstjóra á fundi í húsnæði skólans í Laugarnesi á mánudag. Þar kom fram að Vatnsmýri væri ákjósanlegasta staðsetningin fyrir sameinað framtíðarhúsnæði Listaháskólans.

Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í tilkynningu að niðurstaðan marki ákveðin tímamót í mikilvægu verkefni. Tilgreint sé í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið verði að lausn á húsnæðismálum LHÍ nú á kjörtímabilinu og að uppbygging skólans í Vatnsmýri hafi marga kosti.

Í tilkynningu segir að þegar sé búið að tryggja fjármagn í samkeppni og útboð en að ekki verði hægt að hefjast handa við frekari uppbyggingu fyrr en búið er að tryggja fjármögnun verkefnisins.

Fram kom á fundinum á mánudag að málið hefði verið tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem seinkað hefur verið vegna Covid-19, eigi að vera tilbúin í byrjun október.

Þá er frumathugunin nú til umfjöllunar í mennta- og menningarmálaráðuneyti og verður síðan tekin fyrir og rædd á vettvangi samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×