Innlent

Glatist gögn verður upplýsingaréttur almennings ekki virkur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Njörður Sigurðsson er sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands
Njörður Sigurðsson er sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON

Þjóðskjalasafn Íslands hefur einungis fengið gögn úr þremur prósentum rafrænna gagnakerfa og er víða pottur brotinn í skjalavörslu ríkisins. Ef ekki verður gripið inn í er hætta á að gögn glatist og upplýsingaréttur almennings verði ekki virkur.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur gefið út skýrslu með niðurstöðum úr eftirlitskönnun safnsins á skjalavörslu og skjalastjórn ríkisins.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur skjalavarsla og skjalastjórnin ríkisins í heild farið stöðugt batnandi á síðustu árum en rafræn skjalavarsla situr á hakanum.

„Við höfum aðeins fengið til varðveislu um 3% af öllum rafrænum gagnakerfum ríkisins hingað til Þjóðskjalasafns,“ sagði Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands.

Þrjú prósent, það er svakalega lág tala. Eru þetta ekki ákveðin vonbrigði?

„Jú vissulega. Við hófum að taka við rafrænum gögnum fyrir tíu árum. Árið 2010 þannig það hefur ekki mikið áunnist á þessum tíu árum. Við höfum tekið við 40 rafrænum gagnakerfum á þessum tíu árum sem eru um það bil þrjú prósent,“ sagði Njörður.

Þjóðskjalasafn Íslands.

Verði ekki gripið inn í er hætta á að gögn og upplýsingar glatist.

„Almenningur hefur rétt á að fylgjast með athöfnum hins opinbera og ef að gögn eru ekki til staðar, ef þau varðveitast ekki og eru ekki til staðar þegar á þarf að halda þá er upplýsingarétturinn ekki virkur,“ sagði Njörður.

„Hér á Þjóðskjalasafninu finnur maður ilminn af gömlum pappír. Hér sjáum við einn hillumeter af skjölum en á þjóðskjalsafninu öllu eru um 44 þúsund hillumetrar af skjölum en það samsvarar vegalengdinni héðan og til Hveragerðis,“

Það eru einkum heilbrigðisstofnanir, dómstólar og lögregluembætti sem standa illa þegar kemur að því að uppfylla lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn.

Njörður segir nauðsynlegt að bregðast við fljótt og ráðast í átak í vörslu rafrænna skjala en ríkið þurfi að móta stefnu í þeim málum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.