Innlent

Sleginn með áhaldi á Granda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Granda í vesturbæ Reykjavíkur. Skipin tvö á myndinni tengjast ekki árásinni í nótt.
Frá Granda í vesturbæ Reykjavíkur. Skipin tvö á myndinni tengjast ekki árásinni í nótt. Vísir/vilhelm

Maður var fluttur á bráðadeild í nótt eftir að hafa orðið fyrir árás á Granda í vesturbæ Reykjavíkur. Lögreglan segir að þar hafi verið á ferðinni árásarmaður vopnaður „áhaldi“ sem hann á að hafa notað til að slá fórnarlambið í höfuðið. Áhaldsmaðurinn var handtekinn og hefur fengið að verja nóttinni í fangaklefa en ekki fylgir sögunni hvernig hinum grandalausa þolanda heilsast.

Fleiri eru þó sögð hafa slasast í nótt. Þannig segir lögreglan að kalla hafi þurft út sjúkrabíl upp úr miðnætti eftir að karlmaður féll af hlaupahjóli í miðborginni. Hann á að hafa slasast nokkuð á höfði og nefnir lögreglan sérstaklega munn, andlit og nef í því samhengi.

Aðspurður á hlaupahjólamaðurinn að hafa borið fyrir sig ölvun en af dagbók lögreglu að merkja á annar maður jafnframt að hafa slasast í óhappinu. Sá er sagður hafa verið farþegi á hlaupahjólinu, sem þó er aðeins ætla að flytja einn í einu.

Lögreglan segist jafnframt hafa haft afskipti af fjórum einstaklingum vegna gruns um að þeir hefðu fíkniefni í fórum sínum. Á sama tíma greiddu alþingismenn atkvæði um hvort horfið yrði frá banni við vörslu, kaupum og móttöku fíkniefna. Frumvarp þess efnis var hins vegar fellt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.