Erlent

Frakkar segjast hafa fellt hryðjuverkaleiðtoga í Malí

Kjartan Kjartansson skrifar
Alsíringurinn Abdelmalek Droukdel stýrði aðgerðum al-Qaeda í Norður-Afríku.
Alsíringurinn Abdelmalek Droukdel stýrði aðgerðum al-Qaeda í Norður-Afríku. Vísir/AP

Leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Norður-Afríku féll í aðgerðum franska hersins í Malí fyrr í vikunni, að sögn franska varnarmálaráðherrans. Þá segjast Frakkar hafa tekið einn leiðtoga Ríkis íslams í landinu höndum í síðasta mánuði.

Abdelmalek Droukdel er sagður hafa stýrt fjölda mannskæðra árása, þar á meðal árás á hótel í höfuðborg Búrkína Fasó þar sem þrjátíu manns voru drepnir og 150 særðir árið 2016. Dómstóll í heimalandinu Alsír dæmdi Droukdel til dauða að honum fjarstöddum fyrir hryðjuverk árið 2012. Hann var sakaður um að standa að þremur sprengjuárásum í Algeirsborg sem urðu 22 manns að bana og særðu fleiri en 200 til viðbótar í apríl árið 2007, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Mohamed Mrabat, liðsforingi Ríkis íslams, sem Frakkar segjast hafa tekið höndum í maí er sagður hafa verið háttsettur hjá samtökunum á Saharasvæðinu.

Þúsundir franskra hermanna hafa verið í Malí frá árinu 2013. Þeir voru sendir til þessarar fyrrverandi nýlendu Frakklands eftir að íslamskir vígamenn voru við það að sölsa undir sig stóran hluta af norðanverðu Malí. Stjórnarherinn hefur síðan náð landsvæðunum aftur með aðstoð Frakka en átökin hafa breiðst út til nágrannaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×