Íslenski boltinn

Boðin vinna sem húsvörður í foreldraviðtali

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álftnesingarnir Guðjón Pétur Lýðsson og Kjartan Atli Kjartansson ræða saman.
Álftnesingarnir Guðjón Pétur Lýðsson og Kjartan Atli Kjartansson ræða saman. mynd/stöð 2 sport

Guðjóni Pétri Lýðssyni, leikmanni Breiðabliks, er ýmislegt fleira til lista lagt en að sparka í fótbolta. Hann er nefnilega með afbrigðum handlaginn sem kemur sér vel í starfi hans sem húsvörður í Urriðaholtsskóla.

Kjartan Atli Kjartansson fylgdi Guðjóni eftir í vinnunni í Sportinu í dag og hjálpaði honum m.a. að setja upp töflu.

Guðjón hefur unnið í fimm mánuði í Urriðaholtsskóla. Sagan af því hvernig hann fékk starfið er nokkuð skondin.

„Ég bý hérna í nágrenninu og var í foreldraviðtali. Ég ætlaði ekki að fara í þetta en Þorgerður skólastjóri sannfærði mig um að þetta gæti verið sniðugt. Ég var nýbúinn að byggja hús og var á milli verka,“ sagði Guðjón.

„Ég hef aðeins verið í pólitík og hugsaði að þetta gæti verið góð innsýn í skólann og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Þorgerður vildi fá húsvörð, ég sótti um það og er kominn hingað. Þetta er mjög fínt með fótboltanum.“

Guðjón segir að starfið sé afar fjölbreytt og hann þurfi að sinna hinum ýmsu verkum.

„Þetta hentar mjög vel. Þetta er svipað því að byggja. Það eru alls konar verk sem þarf að hoppa í. Þetta er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins. Þú veist aldrei hvað næsti dagur ber í skauti sér,“ sagði Guðjón. 

Hann segir að Stjörnukrakkarnir í Urriðaholtsskóla taki ekki illa í að húsvörðurinn sé Bliki.

„Það er gaman. Það er aðeins verið að skjóta á mann en við höfum það á góðu nótunum. Ég læt vita að, eins og staðan er núna, er Breiðablik betra lið,“ sagði Guðjón en innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportið í dag - Guðjón Pétur í vinnunni

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×