Innlent

Fyrirtækjalistinn verður birtur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Listi yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda verður birtur. Unnið er að því að koma listanum í birtingarhæft form og er því ekki von á honum fyrr en líklega í næstu viku. Alls hafa ellefu þúsund afskráð sig úr hlutabótakerfinu frá því sem mest var.

Ákall hefur verið um að birta fyritækjalistann og hefur kallið meðal annars komið frá ráðherrum. Vinnumálastofnun hefur nú tekið ákvörðun um birtingu. Enn á þó eftir að vinna listann og setja í birtingarhæfan búning og því verður hann ekki birtur fyrr en í næstu viku.

Forstjóri Vinnumálastofnunar segist þó stíga varlega til jarðar.

„Ég er enn svolítið hugsi þrátt fyrir álit Persónuverndar og hef stuðning persónuverndarfulltrúa stofnunarinnar í því hvort það sé rétt að birta lista yfir fyrirtæki t.d. með fimm starfsmenn eða færri,“ sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hvaða áhyggjur hefur þú?

„Ég hef bara áhyggjur af því að fólk geti fundið út hverjir það voru sem sóttu um greiðslur atvinnuleysisbóta í minnkuðu starfshlutfalli. Það eru einstaklingarnir sem sóttu um og það eru einstaklingarnir sem fengu greitt. Við komumst ekkert hjá því,“ sagði Unnur.

Málið snúist því um traust.

Ekki sé búið að ákveða hvort að fámenn fyrirtæki verði undanskilin listanum en Persónuvernd hefur sagt að slíkt verði til þess að tilgangurinn, sem er að tryggja almannahagsmuni og stuða að aðhaldi fyrir fyrirtæki, náist ekki fyllilega verði fyrirtæki með fáa starfsmenn undanskilin með öllu frá birtingu.

Hluti af svari Persónuverndar til Vinnumálastofnunar vegna birtingar upplýsinga um nýtingu hlutabótaleiðar. Skjáskot úr frétt

Atvinnuleysi jókst mjög í aprílmánuði þegar flestir þeirra sem skráðu sig í minnkað starfshlutfall í kjölfar kórónuveirufaraldursins komu af fullum þunga inn í atvinnuleysistölur. Heildaratvinnuleysi var 17,8%. Alls hafa ellefu þúsund afskráð sig úr hlutabótakerfinu frá því sem mest var.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.