Sport

John Kavanagh heyrði næstum því í Conor McGregor alla leið til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conor McGregor svaraði loksins símanum og var síðan stjarna fyrsta bardagakvöldsins í Stokkhólmi.
Conor McGregor svaraði loksins símanum og var síðan stjarna fyrsta bardagakvöldsins í Stokkhólmi. vísir/getty

Conor McGregor er einn allra frægasti UFC bardagamaður allra tíma en fyrir sjö árum síðan þá vissu ekki alltof margir hver hann var. Það breyttist allt þegar Conor fékk sinn fyrsta UFC-bardaga og sló síðan í gegn á stóra sviðinu.

John Kavanagh, þjálfari Gunnars Nelson og Conor McGregor, var í viðtali hjá Ariel Helwani og sagði skemmtilega sögu af því þegar hann lét Conor McGregor vita af hann væri búinn að fá sinn fyrsta UFC bardaga.

John Kavanagh var þarna að tala um upphafsár Conors McGregor þar sem írski bardagakappinn var ekki að fá mikinn pening fyrir sitt framlag í búrinu þrátt fyrir að hann væri að vinna alla bardaga sína.

„Conor McGregor var að missa áhugann á þessum tíma og sást minna og minna í salnum,“ sagði John Kavanagh og hélt áfram:

„Ég held að hann hafi bara verið að fá 500 til 1000 dollara fyrir bardaga þrátt fyrir að vera vinna svokallaða heimsmeistaratitla,“ sagði John Kavanagh.

„Þetta var fyrir jólin og hann var farinn að hugsa um það að hann þyrfti að gera eitthvað annað með sitt líf,“ sagði John Kavanagh sem var sjálfur ekki tilbúinn að missa Conor út úr sportinu.

„Ég hafði komist yfir tölvupóstinn hjá Sean Shelby [hjá UFC] og lét hann ekki í friði. Að lokum svaraði hann mér í lok janúar og ég á enn þann tölvupóst. Hann talaði þar um bardagakvöld 6. apríl,“ sagði John Kavanagh.

„Ég var þarna staddur á Íslandi og varð mjög spenntur við að fá þessar fréttir. Ég fór að hringja í Conor en hann svaraði ekki símanum. Ég fréttir líka þá að hann lét ekki sjá sig þegar hann átti að kenna tíma í salnum. Hann átti að taka einn tíma á viku fyrir mig,“ sagði John Kavanagh.

„Hann hélt ég væri að hringja í hann til að agnúast út af því. Ég endaði á að senda honum smáskilboð: Svaraðu andskotans símanum því UFC var að hafa samband,“ sagði Kavanagh.

„Hann svaraði loksins símanum og þú veist hvernig Conor er, róleg og yfirveguð týpa sem æsir sig aldrei,“ sagði John Kavanagh af kaldhæðni en hélt svo áfram:

„Ég gat næstum því heyrt öskrin í honum frá Írlandi til Íslands án þess að nota símann. Ég man líka sérstaklega eftir því að Conor spurði aldrei í símtalinu um það við hvern hann væri að fara að berjast,“ sagði John Kavanagh.

Fyrsti UFC-bardagi Conor McGregor var á móti Marcus Brimage og Conor tryggði sér sigurinn í fyrstu lotu. Hann fékk líka verðlaunin fyrir rothögg kvöldsins. Eftir það var frami hans hraður innan UFC.

Það má heyra þetta viðtalsbrot hér fyrir neðan.

MMA


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.