Innlent

Bjarnargreiði Vigdísar

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Ummæli Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um að RÚV beri minna fé úr ríkissjóði ekki síst eins og þeir haga fréttaflutningi sínum hafa valdið úlfúð og er kallað á að hún segi af sér sem formaður fjárlaganefndar og úr hagræðingarhópi ráðherranefndar um ríkisfjármál.

Vigdís sjálf hafnar því að hafa í gær haft í hótunum við Ríkisútvarpið í ummælum sem féllu í Bítinu í gær, það eigi allir sem hlusta að geta heyrt. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. Hún segist ekki óvön því að orð hennar séu rangtúlkuð. Ummælin sem um ræðir eru svohljóðandi:

„Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi. Það liggur allt undir. Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV, sérstaklega þegar þeir standa sig ekki betur en þetta í fréttaflutningi."

Eftir að þessi ummæli fóru á flug hófu þeir Henrý Þór Baldursson og Halldór Auðar Svansson undirskriftasöfnun á netinu. Nú hafa 2.700 manns skrifað undir og þar með skorað á Vigdísi að segja af sér formennsku í Fjárlaganefnd Alþingis sem og Hagræðingarhópi Ríkisstjórnarinnar vegna téðra ummæla.

Páll Magnússon.
Sannkallaður bjarnargreiði

Margir hafa orðið til að benda á að Vigdís hafi í raun gert hollvinum Ríkisútvarpsins mikinn greiða með ummælum sínum og gert allar hugmyndir um niðurskurð framlaga til RÚV tortryggilegar. Páll Magnússon útvarpsstjóri vill ekki fallast á að hann fagni téðum ummælum á þeim forsendum að þau slái vopn úr höndum þeim sem vilja gagnrýna stöðu RÚV á markaði. Páll telur málflutning Vigdísar ekki þannig að hann brengli eðlilega umræðu um RÚV.

„Nei, það held ég ekki. Eins og ég hef sagt vonast ég til að ummælin eins og þau standa samkvæmt orðanna hljóðan, að þetta hafi verið sagt í einhverri fljótfærni eða um klaufalegt orðalag sé að ræða. En ég held að þetta muni ekki hafa nein áhrif á umræðuna um Ríkisútvarpið í sjálfu sér. Það verður þá bara að koma í ljós,“ segir útvarpsstjóri.

Spurður hvort það sé ekki auðvelt í ljósi þessa að gera allar hugmyndir um endurskoðun á stöðu RÚV á markaði eða niðurskurð til stofnunarinnar tortryggilegar segist Páll varla skilja þessar hugmyndir um niðurskurð: „Ég veit svo sem ekkert hvaða hugmyndir menn hafa um þennan niðurskurð. Í þessari umræðu gleyma menn því gjarnan að tekjur Ríkisútvarpsins af því sem kemur af útvarpsgjaldinu hefur minnkað um fjórðung af raungildi frá 2006-2007. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að starfsmönnum hefur verið fækkað hér um 50 til 60. Þannig að niðurskurður á framlagi hins opinbera til Ríkisútvarpsins hefur verið um 25 prósent síðustu árin. Og ég veit ekki hvaða hugsanlegar hugmyndir menn geti haft um frekari niðurskurð á tekjum Ríkisútvarpsins en hverjar sem þær kunna að vera get ég ekki ímyndað mér að ummæli formanns fjárlaganefndar hafi einhver úrslitaáhrif þar.“

Ólafur Þ. Stephensen.
Að víkja eða ekki víkja

Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins telur að Vigdís verði að víkja. Í leiðara í morgun segir algerlega galið af þingmanninum að tengja gagnrýni sína við fjármögnun fyrirtækisins, sem hún er í lykilstöðu til að hafa áhrif á... „bæði sem formaður fjárlaganefndar og nefndarmaður í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar. Svona getur stjórnmálamaður í vestrænu lýðræðisríki einfaldlega ekki leyft sér að tala. Ef ummæli Vigdísar standa óhögguð og hún situr áfram í báðum nefndum, er hægt að gera hvers kyns niðurskurð á því fé sem Alþingi skammtar Ríkisútvarpinu tortryggilegan. Og það væri miður, því að það er full ástæða til spara í rekstri RÚV og draga saman samkeppnishamlandi umsvif fyrirtækisins á fjölmiðlamarkaðnum.“

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður situr í Hagræðingarhópnum með Vigdísi og hann telur þetta ekki ástæðu til að Vigdís láti sig hverfa þaðan.

„Hún hefur mjög skýrt afstöðu sína og bent á hið augljósa sem öllum ætti að vera ljóst, og er alveg kristaltært, að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins tengjast ekki neitt, og munu ekki tengjast og þessi mál verður ekki nálgast með þeim hætti. Alls ekki,“ segir Guðlaugur.

Óheppilegt orðalag

Guðlaugur jafnframt að allt of mikil áhersla hafi verið lögð á ríkisútvarpið í umræðunni um niðurskurð hins opinbera, verkefnið sé svo miklu stærra. „En Vigdís er ekki að meina það þó hún hafi haft uppi óheppilegt orðalag. Nei, þetta kallar ekki á að hún víki úr hópnum. Hún hefur komið mjög skýrt fram og sagt að það sem menn hafa túlkað í orð hennar sé ekki meiningin.“

En, Guðlaugur Þór, það er ákaflega erfitt, eins og margir hafa bent á, að það er ákaflega erfitt að skilja orð hennar nema á einn veg?

„Enda hefur hún komið í kjölfarið og komið fram með yfirlýsingar þess efnis að þetta sé ekki vilji hennar eða meinin. En, jújú, eðli málsins samkvæmt var orðalagið óheppilegt og þess vegna fór nú öll þessi umræða af stað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×