Erlent

Vísindamenn endurskapa bakteríuna Svarta dauða

Vísindamönnum hefur tekist í fyrsta sinn að endurskapa bakteríuna sem olli Svarta dauða á miðöldum en Svarti dauði er ein skæðasta farsótt sem herjað hefur á mannkynið.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði tímaritsins Nature. Þar segir að vísindamennirnir hafi náð í erfðaefni bakteríunnar úr tanngörðum beinagrinda sem fundust í grafreit frá miðöldum í kirkjugarði í East Smithfield hverfinu í London.

Bakterían sem hér um ræðir hefur fræðiheitið Yersinia pestis en afbrigði af henni er enn til staðar í heiminum og veldur dauða um 2.000 manns á hverju ári.

Svarti dauði geysaði í Evrópu á árunum 1347 til 1351 og olli dauða um 50 milljóna manna í álfunni. Sóttin barst til Íslands 50 árum síðar og talið er að allt að helmingur þjóðarinnar hafi dáið að af völdum Svarta dauða. Smitið barst mjög hratt milli manna með flóabiti.

Johannes Krause prófessor við Tubingen háskólann í Þýskalandi er einn þeirra sem unnu að því að endurskapa Svarta dauða. Hann segir að þessi baktería frá miðöldum sé formóður allra þeirra plága sem hrjáð hafa mannkynið síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×