Íslenski boltinn

Leikmaður Rauðu stjörnunnar sparkaði keilu í bíl Víðis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Víðir í leik með ÍBV.
Víðir í leik með ÍBV. Mynd/Daníel
„Ég á eftir að senda reikning til Serbíu,“ segir Víðir Þorvarðarson, leikmaður ÍBV, sem fékk að kenna á bræði leikmanns Rauðu stjörnunnar í gær.

Stefan Mihajlovic kom inn á sem varamaður á 61. mínútu en var ekki nema stundarfjórðung að ná sér í tvær áminningar og þar með rautt spjald.

„Á leiðinni inn í búningsklefa sparkaði hann í appelsínugula umferðarkeilu sem flaug yfir girðingu og beint í afturendann á bílnum mínum,“ segir Víðir við Vísi.

„Þetta er lítil dæld en það er sama - ég sendi honum reikninginn. Menn mega ekki komast upp með svona. Það var ekki skemmtilegt að frétta þetta þegar maður labbaði út af eftir leikinn.“

Víðir segist ekki vanur því að koma á bílnum á völlinn. „Venjulega skil ég hann eftir heima og labba en ég breytti til núna. Það geri ég ekki aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×