Enski boltinn

Wenger vill ekki afskrifa Newcastle og Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal menn fagna hér sigurmarkinu á móti Newcastle.
Arsenal menn fagna hér sigurmarkinu á móti Newcastle. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er á góðri leið með að skila sínum mönnum í Meistaradeildina enn eitt árið. Arsenal er búið að vinna fimm leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er nú í fjórða sætinu með þriggja stiga forskot á Chelsea og aðeins stigi á eftir nágrönnunum í Tottenham.

Arsenal hefur unnið dramatíska sigra á bæði Liverpool og Newcastle United að undanförnu og fóru um leið langt með að enda Meistaradeildardrauma þeirra liða. Newcastle United er nú átta stigum á eftir Arsenal og Liverpool er heilum tíu stigum á eftir. Wenger vill samt ekki afskrifa Newcastle og Liverpool í baráttunni um sætin inn í Meistaradeildina.

„Það er of snemmt að segja að þau séu úr leik," sagði Arsene Wenger við Arsenal Player. Það eru tíu leikir eftir af ensku úrvalsdeildinni og því eru enn 30 stig eftir í pottinum.

„Ég get ekki alveg afskrifað Newcastle eða Liverpool. Það er samt augljóst að aðalkeppnin verður á milli Tottenham Hotspur, Chelsea og Arsenal. Við verðum að bíða í tvo eða þrjá leiki til að sjá hvort hin tvö liðin blandi sér í baráttuna," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×