Enski boltinn

Van der Vaart ánægður með aðferðir Redknapp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart fagnar einu marka sinna í vetur.
Rafael van der Vaart fagnar einu marka sinna í vetur. Mynd/AP
Rafael van der Vaart, leikmaður Tottenham og hollenska landsliðsins, hefur blómstrað undir stjórn Harry Redknapp hjá Tottenham á þessu tímabili og er þegar kominn með 5 mörk í 9 byrjunarliðsleikjum.

Van der Vaart fékk ekki mikið að spreyta sig hjá Real Madrid en hann segir að Harry Redknapp eigi mikið í því hversu vel honum hefur gengið að aðlagast hlutunum í London.

„Harry er sérstakur leikmaður og hann á mikið í því af hverju mér líður eins og heima hjá mér hjá Spurs," sagði Rafael van der Vaart í viðtali við Sky Sports.

„Það eru engar langar og leiðinlegar ræður um taktík eins og þegar ég var hjá Real Madrid. Það er reyndar tafla í búningsklefanum okkar en Harry skrifar aldrei neitt á hana," segir Van der Vaart.

Hann segir að Tottenham-liðið æfi ekki hluti eins og hornspyrnur eða sérstakt uppspil heldur treysti liðið bara á réttar ákvarðanir leikmanna inn á vellinum. Það er einmitt í svoleiðis kerfi sem útsjónarsemi Hollendingsins nýtur sín best.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×