Fótbolti

Kvennalandsliðið spilar á Ullevaal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dóra María og félagar leika á þjóðarleikvangi Norðmanna 19. september.
Dóra María og félagar leika á þjóðarleikvangi Norðmanna 19. september. Mynd/Daníel
Norska knattspyrnusambandið hefur tekið þá ákvörðun að breyta leikstað viðureignar Noregs og Íslands í lokaleik 3. riðils í undankeppni Evrópumótsins 2013. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Leikurinn, sem flest bendir til að verði úrslitaleikur þjóðanna um efsta sæti riðilsins, átti upphaflega að fara fram í Sarpsborg. Nú er hins vegar ljóst að Ullevaal-leikvangurinn í Osló verður vettvangur stórleiksins sem fram fer miðvikudagskvöldið 19. september.

Íslenska landsliðið er í efsta sæti riðilsins með 19 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Noregur er í öðru sæti með 18 stig og Belgía í því þriðja með 17 stig. Næsti leikur Íslands er á heimavelli gegn Norður-Írum þann 15. september en á sama tíma mætast Noregur og Belgía.

Sigur hjá Íslandi á Laugardalsvelli gegn Norður-Írum myndi tryggja liðinu annað sætið í riðlinum óháð úrslitunum í viðureign Noregs og Belgíu. Liðin í öðru sæti mætast í umspilsleikjum um laust sæti í lokakeppninni.* Það var einmitt í umspilsleikjum árið 2008 sem íslenska liðið tryggði sér sæti í lokakeppninni í Finnlandi eftir sigur á Írum.

Efsta sætið í riðlinum gefur hins vegar farseðil í lokakeppni og því ljóst að hart verður barist á Ullevaal þann 19. september misstígi Ísland eða Noregur sig ekki í leikjunum helgina á undan.

*Það lið sem hefur bestan árangur allra liða í öðru sæti tryggir sér farseðilinn í lokakeppnina ásamt sigurvegurum í riðlunum sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×