Erlent

Átök í Grikklandi

Eldsprengjum var kastað að lögreglu þegar mörg þúsund Grikkir komu saman við þinghúsið í Aþenu í dag og kröfðust afsagnar stjórnvalda.

Fjölmargir lögu niður vinnu í dag og atvinnulíf í Grikklandi var nær lamað. Tíu þúsund manns mættu til mótmælanna sem tvö stærstu verkalýðsfélög Grikklands boðuðu til með nokkurra vikna fyrirvara. Krafist var aðgerða af hálfu hægristjórnar landsins til hjálpar launafólki vegna alheimskreppunnar.

Kostas Karamanlis, forsætisráðherra, hafði beðið forkólfa félaganna um að fresta aðgerðunum vegna mótmæla síðustu daga sem blossuðu upp þegar lögregla skaut unglingsdregn til bana í átökum um síðustu helgi. Ekki var orðið við því.

Til átaka kom. Eldsprengjum var kastað. Því var svarað með táragasi og þá var grjóthnullungum látið rigna yfir lögreglumenn.

Þegar átökin blossuðu upp bárust fréttir af því að krufning hefði leitt í ljós að byssukúla hafi kastast í unglingsdrenginn og lögreglumaður því ekki skotið beint á hann. Lögmaður lögreglumannanna, sem hafa verið ákærðir fyrir morð og aðild að morði, segja það styðja fullyrðingar þeirra um að þeir hafi aðeins skotið viðvörunarskotum. Hvort það dugar til að lægja reiðiölduna í landinu er óvíst.

Krafa stjórnarandstöðunnar er að boðað verði til kosninga, ríkisstjórnin sé rúin trausti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×