Enski boltinn

Martial skaut United í úrslitaleikinn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Martial tryggði Manchester United sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Everton í fyrri undanúrslitaleiknum á Wembley í dag.

Martial skoraði sigurmark United þegar hann slapp inn fyrir vörn Everton þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Martial átti frábæran leik í dag en hann lagði upp fyrra mark United fyrir Maraoune Fellaini á 34. mínútu.

Leikurinn var bráðfjörugur og strax í upphafi leiks komst Romelu Lukaku í dauðafæri en Wayne Rooney bjargaði á línu. Annars voru United-menn sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora nema eitt mark.

Í seinni hálfleik komst Everton betur inn í leikinn og var sterkari aðilinn.

Bítlaborgarliðið fékk vítaspyrnu á 57. mínútu þegar Timothy Fosu-Mensah braut á Ross Barkley innan teigs. Lukaku fór á punktinn en David De Gea varði spyrnu hans glæsilega.

Everton hélt áfram að sækja og þegar stundarfjórðungur var til leiksloka jafnaði Chris Smalling metin þegar hann setti boltann í eigið mark.

Það stefndi allt í framlengingu en Martial var á öðru máli og Frakkinn ungi tryggði United sæti í bikarúrslitum í fyrsta sinn frá 2007.

United mætir annað hvort Crystal Palace eða Watford í úrslitaleiknum en þau eigast við í seinni undanúrslitaleiknum á morgun.

Everton 0-1 Man Utd De Gea ver víti frá Lukaku Everton 1-1 Man Utd Everton 1-2 Man Utd



Fleiri fréttir

Sjá meira


×