Erlent

Hommakossar bannaðir á besta tíma

Samkynhneigðir og mannréttindafrömuðir eru æfir yfir þeirri ákvörðun ítalska ríkissjónvarpsins RAI að ritskoða myndina Brokeback Mountain.

Myndin er ástarsaga tveggja samkynhneigðra kúreka. RAI sýndi myndina seint á mánudagskvöldið síðasta, en klippti út kynlífsatriði með kúrekunum tveimur, og annað atriði þar sem þeir kyssast.

Auerilio Mancuso, formaður stærstu réttindasamtaka samkynhneigðra á Ítalíu, sagðist í viðtali við fjölmiðla ætla að krefjast þess að þingnefnd sem fer með málefni RAI rannsakaði málið.

Talsmaður RAI sagði hinsvegar að ekki væri verið að ritskoða myndina, málið væri skipulagsatriði. Upphaflega hefði átt að sýna snyrtu útgáfuna fyrr um kvöldið, þegar lög kveða á um að ekki megi sýna neitt dónalegt vegna þess að börn gætu verið að verið að horfa. Svo hefði verið ákveðið að seinka sýningunni en tæknimenn hefðu gleymt að setja óklipptu útgáfuna í loftið.

Þessi rök kaupa gagnrýnendur stöðvarinnar ekki. Þeir segja að atriði þar sem tveir gagnkynhneigðir einstaklingar kyssast væri aldrei klippt út úr bíómynd. Ekki einu sinni snemma á kvöldin.

Myndin hlaut þrenn Óskarsverðlaun árið 2006, og skaut Heath Ledger, sem lék annan kúrekanna, upp á stjörnuhimininn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×