Innlent

Kveðst ósammála fjármálaráðherra um MDE og segir hann þurfa að svara fyrir eigin orð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segist áfram ætla að standa vörð um aðild Íslendinga að MDE.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segist áfram ætla að standa vörð um aðild Íslendinga að MDE. Fbl/Eyþór

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segist vera algjörlega ósammála þeirri afstöðu sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur tekið gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu en í sjónvarpsviðtali við fréttastofu í gær spurði fjármálaráðherra hvort Íslendingar hefðu framselt túlkunarvald yfir íslenskum lögum til Evrópu.

Bjarni sagði niðurstöður Mannréttindadómstóls Evrópu í gegnum tíðina oft verið mjög umdeildar. Þannig sé „lifandi umræða í Bretlandi“ undanfarin ár um það hvort þeir vilji segja sig frá dómstólnum.

„Nú finnst mér komið upp mál þar sem við hljótum að spyrja okkur hvort hér hafi verið stigið yfir línuna af dómstól sem er ekki æðsti dómstóll á Íslandi,“ sagði Bjarni í umræddu viðtali.

Íslendingar eigi að vera stoltir af aðild MDE

Í viðtali í útvarpsþættinum Bítinu í morgun tók Kolbeinn af allan vafa um það hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri með orðum dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra að undirbúa jarðveginn til að segja Ísland úr MDE.

„Nei, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar ekki að gera það. Það er þá bara hægt að afgreiða það. Ég er algjörlega sammála því að Mannréttindasáttmálinn og Mannréttindadómstóllinn er einn af hornsteinum réttargæsluvörslu fyrir mannréttindi í okkar heimshluta og við eigum að vera stoltir aðilar að honum,“ segir Kolbeinn.

Hann hafi um langt skeið dáðst að störfum MDE.

Kolbeinn segist ætla að standa vörð um aðild okkar að MDE og hyggst gera það áfram. Hann segir að fjármálaráðherra þurfi sjálfur að svara fyrir sín orð.

Frá blaðamannafundið Sigríðar Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra.Vísir/Vilhelm

Hefði mátt hugsa málið víðar

Spurður hvort ríkisstjórnin hefði ekki haft neitt „plan b“ ef illa færi kveðst Kolbeinn ekki vita neitt um það.

„Já, það hefði sjálfsögðu mátt vera búið að hugsa hlutina víðar. Ég hef ekki séð að dómsmálaráðherra hafi verið slík plön, það má vel vera, ég veit ekki hvað er inni í ráðuneytinu þar en forsætisráðherra er núna búinn að tilkynna hvað hún ætlar að gera í þessu.“Kolbeinn segist vilja stunda ábyrga pólitík og vill horfa á stóru myndina og fagna þeim skrefum sem hafa verið tekin eftir að dómurinn var kveðinn upp.

„Þetta var risastórt skref sem var í gær að ráðherra axlar pólitíska ábyrgð og tilkynnir um afsögn sína. Það einhvern veginn er ekki aðalatriðið í umræðunni hér heldur einstaka setningar bæði þess ráðherra þegar hún tilkynnir um afsögn sína og svo Bjarna. Ég er algjörlega ósammála, eins og ég hélt að hefði komið mjög skýrt fram hjá mér áðan, því sem Bjarni hefur sagt varðandi Mannréttindadómstólinn,“ segir Kolbeinn.

Aukaatriðið hvernig afsögnin var orðuð

Hann segir að það sé algjört aukaatriði hvernig Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, hafi kosið að orða afsögn sína á blaðamannafundi en Sigríður sagði á blaðamannafundinum í gær að hún hygðist stíga tímabundið til hliðar.

„Þetta er ekkert undir neinum skilningi undirorpið. Það skiptir engu hvort maður er stjórnarliði eða ekki. Það er ríkisráðsfundur á eftir þar sem hún væntanlega biðst lausnar. Svo er haldinn nýr ríkisráðsfundur þar sem nýr ráðherra tekur við embætti og það þarf ekkert að flækja það neitt. Hún er að segja af sér eða biðst lausnar.“

Kolbeinn segir að það sem taki við núna sé að takast á við afleiðingar dóms MDE og reyna að koma Landsdómi aftur í gagnið.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni. Það hefst á mínútu 1:51:18.
Tengdar fréttir

Síðasti ríkisstjórnarfundur Sigríðar

Ríkisstjórnarfundur hófst í Stjórnarráðshúsinu núna klukkan níu en um er að ræða síðasta ríkisstjórnarfund Sigríðar Á. Andersen, að minnsta kosti í bili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.