Sport

Stjarna Íslands á EM: Réttindalaus og launalaus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn McKee. EPA/PATRICK B. KRAEMER
Anton Sveinn McKee notaði athygli sem hann fékk fyrir frábæran árangur sinn á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 metra laug til að vekja máls á stöðu íslenska afreksíþróttafólksins í dag.

Anton Sveinn komst í úrslit í þremur sundgreinum á EM og náði fjórða sætinu í 200 metra bringusundi. Hann setti sjö Íslandsmet í átta einstaklingssundum og tvö þeirra voru einnig Norðurlandamet.

Það er þó ekki nógu góður tónn í íslenska sundmanninum í pistli sem hann birti inn á Instagram síðu sinni.

„Eftir frábært EM í Glasgow var ég spurður út í framhaldið í sundinu. Eins og staðan er í dag þá er ég réttindalaus og launalaus,“ skrifaði Anton Sveinn McKee.

Anton er á styrk frá Afrekssjóði ÍSÍ og úthlutun sjóðsins hefur aldrei verið eins há eins og fyrir árið 2019 en dugar ekki til í tilfelli Antons.

„Vissulega styður Afrekssjóður við bakið á mér en ekki meira en þannig að ég kem út á núlli, ef ekki í mínus (tekjutap við launalaust leyfi),“ skrifar Anton.

Það er að heyra á honum að hann muni ekki endast lengi í keppnissundinu ef þetta breytist ekki.

„Því miður er eldmóðurinn einn ekki nóg til að hvetja mann að halda áfram til að verða afreksmaður og fyrirmynd á Íslandi og því ég ég ekki fram á langan feril, sem er sárt að segja þar sem árangurinn á EM er bara byrjunin og ég veit að mun meira er inni,“ skrifar Anton.

Hann vill að þetta málefni sé rétt nánar og að Íslendingar spyrji sig hvort Ísland vilji eiga afreksmenn í Ólympíuíþróttum eins og margar aðrar þjóðir „hafa ákveðið að styðja af krafti“

„Ef svo, þá þarf eitthvað að breytast, staðan í dag er því miður ekki nógu góð,“ skrifar Anton eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hann bætir einnig við: „Þetta er mikilvægt málefni sem tengist ekki bara mér heldur framtíð Íslands í afreks og Ólympíuíþróttum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×