Erlent

Vann með Giuliani í Úkraínu að skipan Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sondland í opinberum vitnaleiðslum sem eiga sér nú stað vegna rannsóknar fulltrúadeildarinnar á því hvort Trump hafi brotið af sér í starfi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sondland í opinberum vitnaleiðslum sem eiga sér nú stað vegna rannsóknar fulltrúadeildarinnar á því hvort Trump hafi brotið af sér í starfi. AP/Susan Walsh
Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, segir að hann, Rudy Guiliani, einkalögmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og aðrir hafi beitt yfirvöld Úkraínu þrýstingi með því markmiði að fá Úkraínumenn til að hefja tvær rannsóknir sem myndu nýtast Trump með pólitískum hætti, vegna þess að Trump hafi skipað þeim að gera það. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sondland í opinberum vitnaleiðslum sem eiga sér nú stað vegna rannsóknar fulltrúadeildarinnar á því hvort Trump hafi brotið af sér í starfi.



Sondland segir að hann hafi ekki viljað vinna með Giuliani en hafi talið að hann ætti engra kosta völ þar sem Trump hafi skipað honum að gera það. Hann segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, einnig hafa komið að kröfunni og að Pompeo hafi jafnvel verið undirlægja Giuliani varðandi utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu.

Með þessu vill Sondland sýna fram á að hann hafi ekki tekið þátt í því sem kallað hefur verið „skugga-utanríkisstefna“ Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu. Þetta hafi verið opinber stefna.

Enn fremur segir Sondland að hann hafi vitað að það væri rangt að stöðva afhendingu tæplega 400 milljóna dala neyðaraðstoðar, sem Bandaríkjaþing hafði samþykkt, til Úkraínu. Yfirvöld landsins treystu á þá aðstoð til að verjast aðgerðum Rússa.

Hann segist ítrekað hafa reynt að fá svör við því af hverju neyðaraðstoðin var fryst en ekki fengið svör. Seinna hafi hann orðið fullviss um að aðstoðin myndi ekki berast fyrr en Volodymir Zelensky, forseti Úkraínu, lýsti því opinberlega yfir að áðurnefndar rannsóknir yrðu hafnar, eins og Giuliani hafi farið fram á.

Sjá einnig: Sluppu með naumindum við að verða við kröfum Trump

„Ég vann í góðri trú,“ segir Sondland.

Hægt er að fylgjast með vitnaleiðslunum hér að neðan.

Sondland segir einnig að þó þetta væri í fyrsta sinn sem hann bæri vitni opinberlega hefði hann áður svarað spurningum þingmanna í um tíu klukkustundir. Hann hefði gert það þrátt fyrir að Hvíta húsið og Utanríkisráðuneytið hafi skipað honum að svara ekki spurningum þingmanna. Hann hafi þó tekið þá ákvörðun að mæta í vitnaleiðslur því hann átti sig á alvarleika málsins. Annað en þeir mörgu meðlimir ríkisstjórnarinnar sem hafa framfylgt skipunum Hvíta hússins um að mæta ekki.

Í yfirlýsingu sinni kvartar Sondland yfir því að hafa ekki notið aðstoðar Utanríkisráðuneytisins við að safna upplýsingum vegna yfirheryslanna. Hann hafi sóst eftir skjölum og ekki fengið þau, jafnvel þó engin leynd hvíli á þeim.

Trump hefur ítrekað lýst því yfir að hann þekki Sondland ekki, sem er sagður hafa lagt milljón dali í kosningasjóði forsetans og var tilnefndur í embætti sendiherra af Trump. Sondland segir þó í yfirlýsingu sinni að hann þekki Trump vel og hafi varið miklum tíma með honum.

Adam Schiff, sem stýrir rannsókn fulltrúadeildarinnar, sló á svipaða strengi við upphaf vitnaleiðslanna í dag og rifjaði upp að ákærur gegn Richard Nixon hafi að hluta til verið vegna þess að hann virti ekki stefnur þingsins.

Rannsóknir sem byggja á samsæriskenningum

Forsetinn og bandamenn hans hafa sakað Joe Biden um spillingu vegna þess að hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að reka saksóknara á sama tíma og Hunter, sonur hans, sat í stjórn olíufyrirtækisins. Það eigi Biden að hafa gert til að stöðva rannsókn sem beindist að Burisma, samkvæmt kenningu Trump-liða og vill forsetinn að Úkraínumenn rannsaki það.

Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að Biden-feðgarnir hafi gert nokkuð ólöglega eða að rannsókn hafi yfir höfuð staðið yfir á Burisma á þeim tíma sem þáverandi varaforsetinn reyndi að koma saksóknara frá. Sú viðleitni var hluti af alþjóðlegum þrýstingi þar sem vestræn ríki töldu saksóknarann ljón í vegi þess að uppræta langvarandi spillingu í Úkraínu.

Hin rannsóknin tengist samsæriskenningu um tölvupóstþjón landsnefndar Demókrataflokksins sem rússneskir hakkarar brutust inn í fyrir forsetakosningarnar 2016 og láku vandræðalegum póstum í gegnum Wikileaks. Trump hefur lengi verið gramur vegna niðurstöðu bandarísku leyniþjónustunnar að rússnesk stjórnvöld hafi háð upplýsingastríð og framið tölvuinnbrot til að hjálpa honum til sigurs.

Trump og bandamenn hans hafa því haldið þeirri hugmynd á lofti um að það hafi í reynd verið úkraínskir útsendarar sem frömdu innbrotið í tölvupóstþjón demókrata og að þeir hafi bókstaflega falið áþreifanlegan tölvupóstþjón í Úkraínu. Markmiðið hafi verið að koma sök á Rússa.

Hugmyndin grundvallast meðal annars á þeirri ranghugmynd að Crowdstrike, tölvuöryggisfyrirtæki frá Kaliforníu sem rannsakaði tölvuinnbrotið, hafi í raun verið í eigu úkraínsks auðkýfings. Crowdstrike, og alríkislögreglan FBI, komust að því að rússneskir hakkarar hefðu staðið að innbrotinu. Trump nefndi Crowdstrike sérstaklega á nafn í símtali sínu við Zelensky í júlí. Tölvupóstþjónn demókrata sem brotist var inn í var heldur ekki eitt áþreifanleg tæki eins og kenningin byggir á heldur skýþjónusta.

Sérfræðingar segja þessa samsæriskenningu runna undan rifjum Rússa.


Tengdar fréttir

Bjóða Trump að svara spurningum þingmanna

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bauð í gær Donald Trump, forseta, að mæta á fund þingmanna og svara spurningum þeirra varðandi rannsókn fulltrúadeildarinnar á mögulegum embættisbrotum forsetans.

Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump

Fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins viðurkennir að hafa lagt til að hylja gögn um símtal á milli Trump og Zelensky. Þrátt fyrir það sagðist hann ekki hafa heyrt neitt óviðeigandi í símtalinu.

Sagði símtalið umdeilda óviðeigandi

Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, segir umdeilt símtal Donald Trump og Volodymir Zelensky, forseta Bandaríkjanna og Úkraínu, hafa verið óviðeigandi. Það hefði ekki verið rétt af Trump að biðja erlendan þjóðarleiðtoga að rannsaka bandarískan borgara og pólitískan andstæðing hans.

„Allt hvíldi á rannsóknum“

Sérstakur erindreki Donalds Trump Bandaríkjaforseta greindi starfandi sendiherranum í Úkraínu að allt sem úkraínsk stjórnvöld sóttust eftir frá Bandaríkjastjórn hengi á því að þau létu rannsaka pólitíska andstæðinga Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×