Innlent

Gul viðvörun um allt land á morgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Víða verður vindasamt á morgun.
Víða verður vindasamt á morgun. Skjáskot
Í dag stefnir í suðaustlæga átt og rigningu um sunnanvert landið en þurrt verður fyrir norðan. Einnig er spáð rigningu á vestanverðu landinu. Þar styttir upp þegar líður á daginn. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið á morgun.

Á morgun má búast við öflugri lægð og er útlit fyrir suðaustan storm eða rok um allt land, fyrst um landið suðvestanvert og verður víða hellirigning sunnan heiða. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Hann segir enn fremur að það teljist mjög líklegt að veðrið eigi þá eftir að raska samgöngum víða. Þá byrjar ekki að draga úr vindinum fyrr en annað kvöld og þá fyrst suðvestanlands. Dregur úr vindi eftir helgi og kólnar um allt land.

Á morgun er spáð 18-28 metrum á sekúndu, fyrst suðvestantil á landinu. Einnig má búast við hvössum vindhviðum við fjöll, 30-38 metrum á sekúndu. Fer að lægja suðvestantil á sunnudagskvöld, en norðaustantil á mánudagsmorgun.

Í ábendingu til vegfarenda kemur fram að frá kl. 13-14 á morgun megi reikna með hviðum allt að 35-40 metrum á sekúndu og slagveðursrigningu á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og eins undir Eyjafjöllum.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag: Suðaustan 5-13 m/s, en 13-18 norðaustan- og austanlands. Talsverð rigning eða slydda á Suðausturlandi og Austfjörðum, en stöku skúrir eða slydduél í öðrum landshlutum. Hiti 1 til 5 stig.


Á þriðjudag: Suðaustan 5-13 og skúrir eða él, hiti 0 til 4 stig. Þurrt og bjart að mestu á Norður- og Austurlandi og frost að 7 stigum.

Á miðvikudag: Norðaustan 5-10 og dálítil él um landið norðaustanvert, en léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Frost 0 til 5 stig.

Á fimmtudag: Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en lítils háttar él með norður- og austurströndinni. Kalt í veðri.

Á föstudag: Útlit fyrir ört vaxandi sunnanátt með úrkomu og hlýnandi veðri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×