Sport

Zabit Magomedsharipov með sigur í Rússlandi

Pétur Marinó Jónsson skrifar
UFC var með bardagakvöld í Rússlandi fyrr í kvöld þar sem þeir Zabit Magomedsharipov og Calvin Kattar mættust í aðalbardaga kvöldsins.

Aðalbardagi kvöldsins var einungis þriggja lotu bardagi en ekki fimm lotu bardagi eins og vaninn er í UFC. Bardagi Zabit og Kattar var gerður að aðalbardaga kvöldsins með 17 daga fyrirvara eftir að upprunalegi aðalbardagi kvöldsins datt út.

Sem betur fer fyrir Zabit var þetta bara þriggja lotu bardagi. Heimamaðurinn Zabit byrjaði mjög vel og náði góðum fléttum á Kattar. Bein högg og hnitmiðuð spörk hittu vel og var Kattar í vandræðum framan af.

Í 3. lotu komst Kattar betur inn í bardagann og þjarmaði vel að Zabit sem var farinn að þreytast. Zabit gaf eftir í 3. lotu en það dugði ekki til fyrir Kattar og vann Zabit eftir dómaraákvörðun, 29-28. Ef bardaginn hefði verið fimm lotur má velta því fyrir sér hvernig þetta hefði endað.

Greg Hardy mætti Alexander Volkov í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Volkov er talsvert reynslumeiri bardagamaður en Hardy og notaði löngu vopnin sín gegn Hardy allar 15 mínúturnar. Í fyrstu lotu virtist Hardy hafa brotið á sér höndina eftir spark frá Volkov og átti hann í erfiðleikum með að beita höndinni út bardagann.

Volkov var betri allan tímann og vann allar loturnar. Hardy bar sig vel þrátt fyrir að Volkov væri með fimmfalt meiri reynslu sem atvinnumaður í MMA og sýndi að hann á heima á topp 15 í þungavigt UFC.

Öll úrslit bardagakvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.