Innlent

Bragi Þór ráðinn nýr skóla­meistari

Atli Ísleifsson skrifar
Bragi Þór Svavarsson.
Bragi Þór Svavarsson. Menntaskóli Borgarfjarðar
Bragi Þór Svavarsson hefur verið ráðinn nýr skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar og tekur hann við starfinu í ársbyrjun 2020.

Í tilkynningu frá skólanum segir að Bragi Þór hafi lokið prófi frá kennaradeild Háskólans á Akureyri árið 1999 og meistaraprófi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2017.

„Hann hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2007, fyrst um fjögurra ára skeið sem þjónustustjóri en frá árinu 2011 sem breytingastjóri og deildarstjóri í tækniþjónustu bankans. Áður var Bragi Þór kennari við Grunnskólann á Varmalandi og síðan vefstjóri og umsjónarmaður kennslukerfis við Háskólann á Bifröst um sex ára skeið.

Bragi Þór er kvæntur Hrafnhildi Tryggvadóttur, verkefnastjóra á umhverfis- og skipulagssviði Borgarbyggðar og eiga þau þrjár dætur en fjölskyldan býr í Borgarnesi. Bragi Þór hefur á undanförnum árum talsvert komið að íþrótta- og ungmennastarfi og er sambandsstjóri UMSB.

Bragi Þór var valinn úr hópi níu umsækjenda en ráðgjafar- og ráðningarfyrirtækið Intellecta hafði umsjón með ráðningarferlinu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×