Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - ÍA 1-1 | Vítaspyrna tryggði ÍA stig í Kórnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/bára
HK og ÍA skildu jöfn í Kórnum í næst síðustu umferð Pepsi Max deildar karla í dag. Vítaspyrna á síðustu mínútum leiksins skilaði ÍA stiginu.

Það var ekkert undir í Kórnum nema stoltið og ánægjan af því að sigra, hvorugt lið hafði neitt meira að keppa um. Leikurinn bar þess nokkur merki því hann var frekar bragðdaufur.

Í fyrri hálfleik var það Arnþór Ari Atlason sem komst næst því að skora þegar skot hans upp úr hornspyrnu endaði í stönginni. Bæði lið fengu sín færi, en nýttu þau ekki og var markalaust þegar gengið var til búningsherbergja.

Seinni hálfleikur var miklu fjörugri og áttu bæði lið góð færi til þess að skora í upphafi hans. Ísinn brotnaði á 56. mínútu þegar Arnþór Ari Atlason skoraði með góðu skoti. Eftir markið dofnaði aðeins yfir gestunum en þeir hristu það þó af sér og reyndu að sækja jöfnunarmarkið.

Það var ekki fyrr en á 89. mínútu sem þeir uppskáru þegar vítaspyrna var dæmd á brot í teignum upp úr aukaspyrnu ÍA. Tryggvi Hrafn Haraldsson fór á punktinn og skoraði. Liðin deildu því með sér stigunum í 1-1 jafntefli.

Af hverju varð jafntefli?

Líklegast var jafntefli sanngjörn niðurstaða. Bæði lið áttu mjög góð færi og það var nokkuð jafnræði í leiknum heilt yfir. HK-ingar geta verið fúlir að missa þetta niður í jafntefli eftir að hafa haldið út svona lengi en ÍA átti skilið að skora mark miðað við færin sem þeir komu sér í.

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Jónsson var mjög öflugur fram á við og vantaði bara að hann nýtti einhver af færunum sem hann fékk. Þá var Sindri Snær Magnússon góður á miðjunni, skilaði boltanum vel frá sér og átti stóran þátt í einu hættulegasta færi leiksins.

Hjá HK var Valgeir Valgeirsson mjög öflugur að vanda, sótti aukaspyrnur villt og galið og lét finna fyrir sér.

Hvað gekk illa?

Helst var það færanýting sem vantaði upp á. ÍA fékk nokkur mjög góð færi sem þeir nýttu ekki nógu vel, í fljótu bragði átti HK kannski ekki nein dauðafæri en þeir skutu þó í stöngina og neyddu Árna Snæ Ólafsson í hörku vörslur í nokkur skipti.

Hvað gerist næst?

Nú er bara ein umferð eftir af Pepsi Max deildinni þetta sumarið. Í lokaumferðinni fær ÍA bikarmeistara Víkings í heimsókn á Norðurálsvöllinn og HK mætir Valsmönnum á Hlíðarenda.

Brynjar: Glíma inn í teig sem ég veit ekki hvort var mögulegt að dæma á

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var ekki sáttur með stigið í leikslok, enda aðeins örfáar mínútur sem hans menn hefðu þurft að halda út til þess að fara með öll þrjú stigin.

„Við vorum nær því að skora annað markið heldur en ÍA nokkurn tímann að jafna leikinn,“ sagði Brynjar.

„En þegar líður á leikinn þá pressa þeir stíft og fá aukaspyrnu á hættulegum stað. Úr verður einhver glíma inn í teig sem ég veit ekki hvort að var mögulegt að dæma á í aðra hvora áttina.“

„Stundum verður maður bara að leyfa glímunum að eiga sitt skeið og láta leikinn halda áfram.“

Brynjar var þó nokkuð sáttur með frammistöðu sinna manna.

„Þetta spilaðist svipað og við töluðum um. Við héldum ágætlega í boltann, spiluðum ágætar sóknir, sköpuðum ágætis tækifæri og möguleika, eitt og eitt færi inn á milli sem við hefðum getað nýtt betur.“

„Eftir að við skoruðum þá fannst mér við líklegri næsta korterið að skora, mér fannst ÍA aldrei ógna almennilega okkar marki. Þeir voru eins og þeir eru, með langar spyrnur inn í teiginn, og þá getur allt gerst,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson.

 

Jói Kalli: Ekki til í orðabókinni að það sé lítið undir

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með frammistöðu sína manna í 1-1 jafnteflinu við HK í Pepsi Max deild karla í dag. Hann sagði stigið hafa verið sanngjarnt.

„Algjörlega. Mér fannst fyrri hálfleikurinn mjög flottur, komumst í góðar stöður og vorum óheppnir að komast ekki í forystu þegar þeir bjarga eiginlega á línu eftir góða sókn hjá okkur upp hægra megin þar sem Viktor komst inn á nærsvæðið.“

„Munaði engu að við kæmumst yfir sem hefði alveg verið sanngjarnt. Líka þegar leið á leikinn, eftir að við jöfnuðum vorum við óheppnir að ná ekki sigurmarkinu, svo við áttum að minnsta kosti að fá eitt stig út úr þessu.“

Það var greinilegt að Jóhannes var nokkuð sáttur með sína menn. „HK eru mjög erfiðir heim að sækja, skipulagðir og þéttir, en við náðum að gera það sem við vorum að reyna að gera, að geta spilað á milli línanna hjá þeim og komist aftur fyrir þá.“

„Það heppnaðist nokkuð vel og ég var virkilega ánægður með strákana, það sem þeir lögðu í leikinn og gáfust ekki upp þó þeir hafi fengið mark í andlitið.“

Jóhannes vildi ekki samþykkja það að lítið hafi verið undir í leiknum, en hvorugt lið var í rauninni að berjast um neitt í deildinni, bæði búin að bjarga sér frá falli.

„Það er aldrei hægt að segja að það sé lítið undir í fótbolta. Það er ekki til í okkar orðabók uppi á Skaga, hver einasti leikur skiptir gríðarlega miklu máli. Það voru þrjú stig undir og við ætluðum okkur að taka þau.“

„Við náðum því ekki svo við erum pínu pirraðir með það, pínu svekktir, en það er líka gott að fá eitt stig hérna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira