Yorke var gestur þáttarinsDesert Island Discs á BBC 4 um helginaen gestir þáttarins fá þar að velja átta lög, eina bók og lúxusvöru sem þeir myndu taka með sér á eyðieyju, á milli þess sem þeir ræða allt milli himins og jarðar við þáttastjórnandann.
Yorke er alla jafna nokkuð sparsamur þegar kemur að viðtölum en í þættinum mátti heyra hann fara á ítarlegan og einlægan hátt yfir feril sinn og hljómsveitarinnar Radiohead, einnar virtustu hljómsveitar samtímans, sem starfað hefur í hartnær 34 ár.
Sjá einnig:Þegar Radiohead hélt bestu tónleika sögunnar
Í viðtalinu var hann meðal annars spurður hvort hann hafi ekki þurft að eyða miklum tíma í að hugsa um röddina í sér, verandi söngvari einnar þekktustu hljómsveitar heims. Sagðist hann ekki hafa pælt mikið í því fyrr en hann hitti Björk, en þau hafa starfað saman í nokkur skipti, auk þess sem að Radiohead gerði á sínum tíma ábreiðu af lagi Bjarkar, Unravel, sem heyra má í spilaranum hér að neðan.
Sjá einnig: Gríðarlegu magni af áður óútgefnu efni Radiohead lekið á netið
„Ég gerði bara eitthvað,“ sagði hann um hvernig hann hafi á þessum tíma hugsað um röddina í sér. Eftir að hafa farið til læknis sem útskýrði fyrir honum í smáatriðum hvernig raddböndin virka og eftir útstáelsi hans og Bjarkar fór hann hins vegar að hugsa betur um röddina.
„Það var eitt skipti þegar ég var að vinna með Björk. Við fórum út á lífið og ég varð alveg hauslaus. Morguninn eftir vaknaði ég við að hún var að hita upp röddina á sér,“ sagði Yorke en hann og Björk unnu meðal annars að laginu I've Seen It All sem tilnefnt var til Óskarsverðlauna árið 2000 sem besta frumsamda lagið.
„Vá, klukkan er hálfellefu að morgni til og þú ert byrjuð að hita upp. Það er langt í að við eigum að byrja að syngja,“ sagðist Yorke hafa hugsað þegar hann heyrði í Björk. „Þá fór ég að taka þetta alvarlega.“
Sjá einnig: Lagið sem hefði gert Radiohead of vinsæla loks að koma út
Sem fyrr segir er viðtalið nokkuð ítarlegt og einlægt. Lýsir hann meðal annars því hversu mikið áfall það hafi verið þegar Rachel Owen, barnsmóðir hans og fyrrverandi eiginkona, lést úr krabbameini árið 2016. Saman eiga þau tvö börn.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.