Innlent

Út­lit fyrir að fisk­eldi tvö­faldist á næstu árum

Atli Ísleifsson skrifar
Fiskeldi Austfjarða er með fiskeldi í bæði Berufirði og Fáskrúðsfirði.
Fiskeldi Austfjarða er með fiskeldi í bæði Berufirði og Fáskrúðsfirði. Vísir/Vilhelm
Útlit er fyrir að samanlögð fiskeldisframleiðsla á Íslandi komi til með að tvöfaldast á næstu tveimur árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að það sem af er ári er vöxtur í útflutningsverðmæti fiskeldis milli ára um 60 prósent. Verðmæti verður líklega hátt í 20 milljarðar króna í ár sem nemi ríflega eitt prósent af heildarútflutningi.

Framleiðsluheimildir í fiskeldi hafa nær tvöfaldast á þessu ári og eru nú um 85 þúsund tonn á ári miðað við útgefin starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Er áætlað að það taki rekstraraðila um tvö ár að komast í fulla framleiðslugetu.

„Gangi áform eftir eru líkur á að samanlögð framleiðsla tvöfaldist til ársins 2021. Miðað við óbreytt afurðaverð þýðir þetta að útflutningsverðmæti fiskeldis gæti orðið um 40 ma.kr. árið 2021. Það nemur hátt í 3% af heildarútflutningi og slagar upp í verðmæti alls uppsjávarfisks í fyrra. Spáin er vitanlega háð óvissu um gang mála hjá einstökum framleiðendum.

Spá um þróun í fiskeldi á næstu árum.Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Miðað við þær starfsleyfisumsóknir sem eru til skoðunar mun vöxtur fiskeldis líklega halda áfram eftir árið 2021. Það er þó takmarkað hversu mikinn fisk er hægt að framleiða í einstökum fjörðum og víða eru samanlagðar heimildir að nálgast burðarþol fjarðanna. Þrátt fyrir það er ekki útilokað að framleiðsluverðmætið geti vaxið um nokkra tugi milljarða til viðbótar á árunum eftir 2021,“ segir í tilkynningunni.

Mestallt fiskeldi hér á landi er annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Austfjörðum. Skiptist það tiltölulega jafnt milli þessara tveggja landsvæða.


Tengdar fréttir

Fjarðalax með rekstrarleyfi til fiskeldis

Heimilt er að kæra ákvörðun MAST um útgáfu rekstrarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×