Innlent

Skag­strendingar for­dæma vinnu­brögð SÍS vegna sam­einingar­til­lagna

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúar í Sveitarfélaginu Skagastönd voru 492 í ársbyrjun, samkvæmt heimasíðu SÍS.
Íbúar í Sveitarfélaginu Skagastönd voru 492 í ársbyrjun, samkvæmt heimasíðu SÍS. Norðurstrandarleið
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar er allt annað en sátt með tillögur um sameiningaráform á sveitarstjórnarstiginu og hefur sent frá sér harðorða bókun þess efnis. Í bókuninni, sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í gær, er Alþingi hvatt „til þess að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og íbúa landsins og hafna með öllu tillögum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga“.

Skagaströnd er ekki fyrsta sveitarfélagið til að lýsa yfir efasemdum um tillögu ráðherra sveitarstjórnarmála um að lágmarksíbúafjöldi hvers sveitarfélags miðist við þúsund íbúa.

Tjörneshreppur, þar sem íbúar eru fimmtíu, ákvað að segja sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga, eftir að sambandið lýsti yfir stuðningi við tillögur ráðherra. Þá hefur sveitarstjórn Grýtubakkahrepps sagt að verið sé að íhuga hvort sveitarfélagið segi sig úr SÍS.

Úthugsuð tala

Sveitarstjórn Skagastrandar segir að þúsund íbúa lágmarkið sé einungis valið til að tryggja tillögunni brautargengi þar sem hún snerti nægjanlega fáa með beinum hætti.

„Samþykkt þingsins var síðan blygðunarlaust kynnt sem vilji sveitarstjórnarstigsins í heild þó hún gangi þvert gegn vilja mikils meirihluta þeirra sveitarfélaga sem lögþvingunin ætti að ná til. Enginn hagfræðingur, viðskiptafræðingur eða fjármálaverkfræðingur er þess umkominn að skera úr um hver sé hagkvæmasta stærð sveitarfélaga. Íbúarnir eiga að ráða,“ segir í bókun sveitarstjórnar Skagastrandar.



Fordæma vinnudrögð

Sveitarstjórnin segist jafnframt fordæma vinnubrögð SÍS í málinu. Sambandið eigi að vera málsvari sveitarfélaga og að stjórn sambandsins hafi „farið þvert gegn vilja og hagsmunum fjölmargra minni sveitarfélaga, hunsað þeirra sjónarmið og röksemdafærslu.“ Að óbreyttu verði ekki lengur hægt að líta á stjórn SÍS sem málsvara allra sveitarfélaga.

Íbúar í Sveitarfélaginu Skagastönd voru 492 í ársbyrjun, samkvæmt heimasíðu SÍS.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×