Innlent

Engin þörf á að vera besta út­gáfan af sjálfum sér

Inga Rún Sigurðardóttir skrifar
Hreyfing og útivera er mikilvægur þáttur í vellíðan margra.
Hreyfing og útivera er mikilvægur þáttur í vellíðan margra. vísir/vilhelm
Það er vel hægt að verða betri manneskja en það er verið að ala á óhamingju með því að segja fólki að það geti verið besta útgáfan af sjálfu sér. Góðvildin vísar leiðina úr sjálfhverfunni sem neyslusamfélagið kyndir undir. Mikilvægt er að lifa í sátt við náttúruna og gefa fólki tækifæri til að rækta hæfileika sína.Tveir heimspekingar ættu að geta komið með tillögu að því hvernig hægt sé að verða betri manneskja; Gunnar Hersveinn og Elsa Björg Magnúsdóttir eru að minnsta kosti fús til að takast á við stórar spurningar.Mikill áhugi hefur verið á sjálfsrækt síðustu ár en Gunnar Hersveinn hefur gert tilraunir til að setja heimspeki á dagskrá með viðburðinum Heimspekikaffi sem hann stendur reglulega fyrir í Gerðubergi. Elsa er einmitt næsti gestur hans þar en þá verður yfirskriftin – Sjálfið á tímum Alnetsins – sem tengist inn í þema dagsins.„Mér finnst við vera í gríðarlegri sjálfhverfu. Við erum hvert og eitt komin með svo mikið pláss. Við keppumst við að skapa sjálfsmynd á Alnetinu og allir geta sagt eitthvað og látið það heyrast. Hver hefur tíma til að horfa inn á við þegar athyglin togast sífellt út á við? Hugsið ykkur hvað þetta er farið að taka mikið rými í lífinu og stjórnar okkur mikið,“ segir Elsa um flæðandi „like“-in.„Vinsældirnar eru mælikvarðinn; hve margir horfðu? Það er engin hugsjón í gangi eða fagmennska. Þú getur verið að snurfusa sjálfsmynd þína á netinu, lagt alla orkuna í það í staðinn fyrir að líta inn á við, hlusta á innri rödd,“ segir Gunnar Hersveinn og víkur næst athyglinni að umhverfismálum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni og heimsmálunum að undanförnu.

Náttúran og maðurinn

„Til að öðlast hamingju verður maður að vera í góðu sambandi við jörðina. Þar af leiðandi ekki svívirða hana eða ganga á hana. Ég held að mjög margir finni til út af því hvernig komið er fram við jörðina, dýrin, eða skóginn og hvernig lífshættir okkar eru. Ég sé að æ fleiri eru farnir að þjást yfir þessu. Þá bitnar það á þeirra hamingju. Að ná aftur betra sambandi við jörðina og sýna henni virðingu, þetta er verkefni í kringum hamingjuna núna, að tengja betur,“ segir hann.„Við erum gjörn á að hugsa um náttúruna og manninn sem tvennt aðskilið; annars vegar erum það við og hins vegar jörðin. Ef við ætlum að bæta samband okkar við jörðina þýðir það að við eigum að bæta samband okkar við okkur sjálf því við og jörðin erum eitt. Ég vil að við reynum að afmá þessa ofurþörf fyrir að greina allt í sundur,“ segir Elsa.„Þetta er brýnt verkefni núna í hamingjuleitinni. Hugtök eins og skynsemi og tilfinningar eru f lokkuð í tvo aðskilda hluti en renna saman í ákveðnum aðstæðum. Allur þessi greinarmunur er ekki til góðs, því við missum sambandið við náttúruna og kannski við sjálf okkur,“ segir Gunnar Hersveinn.„Ég vildi óska þess að fólk reyndi almennt að temja sér að hugsa í stærra og heildrænna samhengi. Hvernig í veröldinni samræmist það þessari ríku sjálfshyggju sem er í gangi; að vera besta útgáfan af sjálfum sér? Við þurfum að hugsa um heildina, hvernig við komum fram í hnattrænum skilningi. Við þurfum að hugsa eins og heimsborgarar,“ segir Elsa og ræðir mikla neyslu á Íslandi og þá háværu kröfu að allir séu hamingjusamir og fullnægðir.

Sjálfshyggja og neytandinn

„Við erum sífellt minnt á að neyta og upplifa af því við lifum nú aðeins einu sinni, að það sé núna eða aldrei, sem gengur greinilega í berhögg við verndum plánetunnar. Hún samræmist ekki því að hugsa um umhverfið og neyta minna,“ segir hún.Það hlýtur að þurfa sjálfsskoðun til að verða betri manneskja; spyrja hver er ég?„Þessi spurning er alltaf viðloð-andi. Það hefur gagnast mér í svona pælingum að reyna að hugsa einmitt um stærra samhengi, heldur en það sem maður hrærist í hversdagslega,“ segir Elsa.„Maður þarf að vinna bug á ákveðnum löstum, eins og til dæmis græðgi. Þá þarf maður að temja sér sjálfsaga og nægjusemi. Ég er á því að nægjusemi ætti að vera gildi til framtíðar. Bæði gagnvart náttúrunni, öðrum og sjálfum sér,“ segir Gunnar Hersveinn og útskýrir að það að verða betri manneskja taki bæði tíma og þolinmæði. „Ef þú ætlar að efla með þér ákveðna dyggð, þá tekur það tíma. Það er til dæmis ekki hægt að ákveða einn, tveir og þrír að ég ætli að verða hugrakkur heldur verð ég að æfa mig í því.“Talið berst að hinum allsráðandi frasa – að vera besta útgáfan af sjálfum sér.„Ég vil meina að við séum öll bestu útgáfurnar af sjálfum okkur. Það er ekki hægt að verða önnur útgáfa af því sem þú ert þegar. Að mínu mati ertu bara með ákveðið úr að moða og það er í eðli sínu fullkomið og ófullkomið, yfirleitt frekar ófullkomið. Það er bara frábær útgáfa. Það er ekki til nein fullkomnun á þér,“ segir Elsa.

Ræktaðu það sem þú ert góður í

Gunnar Hersveinn segir mikilvægt að fólk fái tækifæri til að rækta það sem það er gott í.„Maður tekur eftir því í hverju maður er góður, það er eitthvað sem maður sinnir af alúð og jafnvel gleymir sér í. Ég sá aldrei fyrir mér að það kæmi bylgja þar sem maður ætti að verða besta útgáfan af sjálfum sér, heldur væri bara nægjanlegt að rækta hæfileika sína og gáfur. Erum við þá einhverjar slappar útgáfur af sjálfum okkur?“ segir hann.„Mér þykir það heldur glæfralegt að ala á þeirri trú einstaklinga að þeir geti orðið bestu útgáfurnar af sér sem til eru,“ segir Elsa.„Það er verið að ala á óhamingju og ég velti fyrir mér hvað við erum beðin um að gera til þess en það krefst oft töluverðra peningasveifla. Satt að segja er verið að segja okkur að við séum ekki nógu góð, að það sé til einhver besta útgáfa. Við erum ekki gefin út í upplögum heldur aðeins í einni útgáfu,“ segir Elsa en henni finnst þetta sérstaklega hættuleg skilaboð fyrir unglinga.„Þetta kallar á flótta,“ segir hún, „að gefa bara skít í þetta. Þá erum við komin með flóttamenn frá eigin lífi út af eilífum kröfum.“Gunnar Hersveinn er með þá hugmynd að góðvildin geti hjálpað okkur út úr sjálfhverfunni, að við verðum ekki hamingjusöm eða betri manneskjur fyrr en við hugsum um hag annarra.„Í neyslusamfélagi er verið að hugsa um eigin hamingju, við gætum tapað því að langa til að öllum öðrum líði vel líka. Ef við hugsum um næstu ár, þá gæti þetta verið liður í hamingjuleitinni, að rækta góðvild gagnvart öðrum. Og virðingu gagnvart náttúrunni. Þá kemstu út úr þessari sjálfhverfu hugsun,“ segir hann og bætir við:„Ég held að það verði enginn fullgerð manneskja fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra og leggja eitthvað til í samfélaginu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.