Sport

Clijsters snýr aftur á tennisvöllinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kim Clijsters er orðin þriggja barna móðir en stefnir á toppinn
Kim Clijsters er orðin þriggja barna móðir en stefnir á toppinn vísir/getty
Belgíska tennisstjarnan Kim Clijsters ætlar að snúa aftur í íþróttina eftir að hafa haft spaðann á hillunni í sjö ár.

Clijsters er 36 ára gömul og ætlar hún að mæta til leiks á WTA mótaröðina á nýjan leik á næsta ári. Hún segir ástæðuna fyrir því að hún sé að koma aftur vera innblástur frá öðrum mæðrum sem eru í fremstu röð, svo sem Serena Williams og Victoria Azarenka.

Fyrrum efsta kona heimslistans hætti keppni árið 2007 til þess að einbeita sér að móðurhlutverkinu. Hún kom aftur 2009 og vann þrjá risatitla áður en hún setti spaðann aftur á hilluna 2012.

„Ég er ekki að reyna að sanna mig, fyrir mig snýst þetta um áskorunina. Markmiðið núna er að komast í nógu gott form til þess að keppa í hæsta gæðaflokki,“ sagði Clijsters.

Á ferli sínum vann Clijsters 41 titla á WTA mótaröðinni og var samtals í 20 vikur í efsta sæti heimslistans.

Clijsters segist hafa verið að íhuga endurkomuna í tvö ár.

„Jafnvel þó ég nái ekki aftur í hæsta gæðaflokk þá hefur þetta ferli verið þess virði. Það er mjög gott að vera komin aftur í rútínu,“ sagði Clijsters.

Hún stefnir á endurkomu í janúar 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×