Innlent

Úti­vistar­tími barna styttist í dag

Sylvía Hall skrifar
Börn tólf ára og yngri þurfa að vera komin heim klukkan átta.
Börn tólf ára og yngri þurfa að vera komin heim klukkan átta. Vísir/Vilhelm
Á hverju ári tekur útivistartími barna breytingum þann 1. september og mega börn sem eru tólf ára og yngri hér eftir vera úti til klukkan 20 á kvöldin. Unglingar á aldrinum þrettán til sextán ára mega vera úti til klukkan 22 en þó er heimilt að bregða út af þeim reglum ef unglingar eru á leið heim frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Aldur miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. Því mega þeir sem eru þrettán ára á árinu vera úti til 22 líkt og jafnaldrar sínir þó afmælisdagurinn sé ekki runninn upp.

Lögreglan áréttar að foreldrum er heimilt að stytta þennan tíma ef þeir kjósa að gera svo og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma. Ekki er heimilt að foreldrar lengi þann tíma þar sem útivistarreglur eru samkvæmt barnaverndarlögum.

Í færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að reglurnar séu einna helst til þess fallnar að tryggja það að börn og ungmenni fái nægan svefn, sem sé þeim nauðsynlegur á þessum aldri. Þó hann sé einstaklingsbundinn megi áætla að grunnskólanemar almennt þurfi tíu tíma svefn á nóttu. Síma- og tölvunotkun geti komið í veg fyrir það og því skynsamlegt að foreldrar gangi úr skugga um að raftækjanotkun sé ekki að eiga sér stað á svefntíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×