Sport

Vara bandaríska íþróttafólkið við því að mótmæla á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sleggjukastarinn Gwen Berry mótmælti á Pan-American leikunum í Lima í Perú.
Sleggjukastarinn Gwen Berry mótmælti á Pan-American leikunum í Lima í Perú. Getty/Toru Hanai

Bandaríska íþróttaforystan mun ekki sýna neina þolinmæði eða miskunn taki íþróttafólk þeirra upp á því að vera með pólitísk mótmæli á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári.

Bandaríska íþróttafólkið hefur verið varað við að það muni hafa afleiðingar fyrir þau reyni þau eitthvað slíkt næsta sumar.

Þessi yfirlýsing kemur fram eftir að tveir íþróttamenn mótmæltu á verðlaunapalli á Pan-American leikunum í Lima í Perú.Skylmingarmaðurinn Race Imboden og sleggjukastarinn Gwen Berry eru bæði á tólf mánaða skilorði eftir mótmæli sín. AP news komst yfir bréf sem íþróttafólkið fékk sent þar sem Sarah Hirshland, framkvæmdastjóri bandarísku Ólympíunefndarinnar, sagði meðal annars að hún beri virðingu fyrir sjónarmiðum íþróttafólks en að þetta hafi hvorki verið staður né stund til að láta þau í ljós.

Race Imboden fór niður á hné þegar þjóðsöngurinn var spilaður í verðlaunaafhendingu sinni en Gwen Berry setti hnefann upp í loft. Bæði sögðust þau vera að mótmæla óréttlæti og mismunun í bandarísku þjóðfélagi.

Næsta sumar verður mjög stutt í forsetakosningar og því mikið í gangi í bandarískri pólitík. Það er því ekkert skrýtið að yfirmenn bandaríska Ólympíuliðsins hafi áhyggjur af hugsanlegum mótmælum síns íþróttafólks.

Allir íþróttamenn verða að skrifa undir plagg þar sem þeir samþykkja það að vera ekki með mótmæli á Ólympíuleikum eða Pan-American leikum hvort sem þau eru pólitísk, trúarleg eða tengjast kynþáttum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.