Erlent

Líkið sem fannst er af Noru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nora ásamt móður sinni, Meabh Quoirin.
Nora ásamt móður sinni, Meabh Quoirin. Facebook
Lögregla í Malasíu hefur staðfest að líkið sem fannst í dag við leit að hinni 15 ára Noru Quoirin, írskum táningi með þroskaskerðingu sem hvarf úr fjölskyldufríi í landinu í byrjun ágúst, sé af stúlkunni. Fjölskylda hennar bar kennsl á líkið í dag.

Fjölskylda Noru hafði aðeins dvalið í Malasíu í tæpan sólarhring áður en stúlkan hvarf af hótelherbergi sínu þann 4. ágúst síðastliðinn. Fyrirhugað var tveggja vikna fjölskyldufrí í bænum Seremban, nærri regnskógunum við borgarmörk Kuala Lumpur.

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Noru síðan hún hvarf. Um 350 manns komu að leitinni þar sem m.a. var notast við upptökur af rödd móður stúlkunnar.

Ekki í neinum fötum

Í dag var greint frá því að lík af hvítri konu hefði fundist í um tveggja kílómetra fjarlægð frá hótelinu þar sem fjölskyldan dvaldi. Ekki fékkst staðfest að líkið væri af Noru fyrr en fjölskylda hennar bar kennsl á það nú síðdegis. Líkið verður krufið á morgun, að því er fram kemur í breskum fjölmiðlum.

Mazlan Mansor, aðstoðarlögreglustjóri hjá malasísku lögreglunni, sagði á blaðamannafundi í dag að lík Noru hefði fundist við læk á „bröttu svæði“. Stúlkan hafi jafnframt ekki verið í neinum fötum þegar hún fannst látin.

Fjölskylda Noru gaf það út í síðustu viku að hún væri sannfærð um að henni hefði verið rænt en lögregla hefur rannsakað málið sem mannshvarf, þ.e. án aðkomu ætlaðra mannræningja.

Í síðustu viku hétu foreldrar Noru tíu þúsund pundum, tæplega 1,5 milljónum íslenskra króna, í fundarlaun fyrir hvern þann sem fyndi dóttur þeirra.


Tengdar fréttir

Fundu lík við leitina að Noru

Lögregla í Malasíu fann í dag lík við leit að hinni 15 ára Noru Quoirin, breskum táningi með þroskaskerðingu sem saknað hefur verið síðan í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×