Innlent

Ástþór varar við netsvindli í hans nafni: „Þetta er algjör uppspuni frá rótum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ástþór Magnússon.
Ástþór Magnússon. Vísir/Hanna
Ástþór Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, vill vekja athygli á falsfrétt sem er í dreifingu á Facebook og annars staðar á netinu þar sem hann er sagður vera Bitcoin-frumkvöðull og hafi hagnast mjög á viðskiptum með rafmyntina. Ástþór segir að um hreinan uppspuna sé að ræða og telur hann um að einhvers konar netsvindl sé að ræða.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti af síðunni er fréttin látin líta út fyrir að hafa verið birt á vef Viðskiptablaðsins. Þar eru notaðar myndir af Ástþóri og hann sagður vera að benda Íslendingum á að hægt væri að hagnast mjög á viðskiptum með rafmyntina Bitcoin með því að nota ákveðið forrit.

„Þetta er algjör uppspuni frá rótum,“ segir Ástþór í samtali við Vísi um málið. „Ég tengist þessum aðilum eða þessu fyrirtæki ekki á nokkurn hátt hvorki fyrr né síðar.“

Viðskiptabaðið er ekki til.Skjáskot.
Þegar nánar er að gáð er augljóst að verið er að reyna að blekkja netverja með „fréttinni.“ Í haus síðunnar stendur Viðskiptabaðið, auk þess sem að íslenskan er hreint ekki til fyrirmyndar. Mörg dæmi eru um að óprúttnir aðilar reyni að notfæra sér nafntoga Íslendinga og vel þekktar fréttasíður til þess að blekkja fólk.

Þannig hefur nafn rithöfundurins og viðskiptamannsins Ólafs Jóhanns Ólafssonar verið nýtt í sama tilgangi, sem og nafn forsetans. Meira að segja hefur fjármálaráðuneytið verið notað í þessum tilgangi.

„Ég vil að fólk viti af því að þetta er bara kjaftæði“

Ástþór segir hafa séð sig knúinn til þess að láta vita að hann væri ekki á bak við þessar frétt enda hafi nokkrir sett sig í samband við hann til þess að benda honum á þetta.

„Ég vil að fólk viti af því að þetta er bara kjaftæði. Ég vil ekki að einhver fari í að lenda í klónum á einhverjum svindlurum að fjárfesta peningum í einhverja algjöra lygasögu,“ segir Ástþór.

Segist hann hafa látið lögregluna vita þar sem Facebook sé borgað fyrir að dreifa fréttinni. Vill hann að lögreglan hafi samband við Facebook svo taka megi auglýsingina úr birtingu, auk þes sem hann vill að lögreglan láti fólk vita að um svindl sé að ræða.

Ekki er langt síðan lögreglan varaði við falsfréttasvindli á borð við það sem virðist vera á ferðinni hér. Í tilkynningu lögreglu sagði að svindl fyrirtækjanna fælist fyrst og fremst í því að sannfæra einstaklinga um að leggja inn fé sem nota á í „viðskiptaplan og tölvustýrða áhættu.“ Í flestum tilvikum hyrfu peningarnir þó fljótt og örugglega í viðskiptum sem aldrei áttu sér stað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×