Íslenski boltinn

Þór í annað sæti eftir dramatík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs, lagði upp sigurmarkið
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs, lagði upp sigurmarkið vísir/vilhelm

Þór tók annað sætið í Inkassodeild karla af Gróttu með dramatískum sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ. Leiknir skellti Magna fyrir norðan.

Dino Gavric var hetja Þórs gegn nýliðunum, hann skoraði sigurmark Þórsara á síðustu mínútum leiks Aftureldingar og Þórs á Varmárvelli. Hann skoraði markið með skalla eftir aukaspyrnu Sveins Elíasar Jónssonar.

Áður hafði Bjarki Þór Viðarsson komið Þór yfir undir lok fyrri hálfleiks en Andri Freyr Jónasson jafnaði fyrir heimamenn á 71. mínútu. Leiknum lauk með 2-1 sigri Þórs.

Á Grenivík tók botnlið Magna á móti Leikni. Gestirnir úr Breiðholtinu komust yfir á 29. mínútu með marki frá Daníel Finns Matthíassyni.

Leiknir var með nokkra yfirburði í fyrri hálfleik en Magnamenn komu sterkir inn í þann síðari. Krafturinn skilaði sér hins vegar ekki í marki, í staðinn tvöfaldaði Vuk Oskar Dimitrijevic forystu Leiknis á 72. mínútu. Sveinn Óli Birgisson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark og tryggja Leikni þar með 3-0 sigur.

Þór er nú kominn með 26 stig og fer upp fyrir Gróttu í annað sæti Inkassodeildarinnar. Þórsarar eru þá þremur stigum á eftir toppliði Fjölnis. Leiknir er í nokkuð lygnum sjó um miðja deild, fer upp um sæti í það fimmta með 21 stig.

Afturelding og Magni sitja áfram í fallsætunum með 10 stig líkt og Njarðvík sem er með betri markatölu.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.