Sport

Katrín Tanja: Toppurinn á tilverunni er ekki að vinna heimsleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Skjámynd/Youtube/CompTrain
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur unnið heimsleikana í CrossFit tvisvar sinnum og hefur setta stefnuna á þriðja sigurinn um Verslunarmannahelgina.

Katrín Tanja leggur gríðarlega mikið á sig í undirbúningi sínum fyrir heimsleikana og ætlar sér stóra hluti þar að venju. Í viðtali í heimildarmynd um undirbúning CrossFit fólks fyrir leikana í ár segir Katrín frá þeirri upplifun að vinna heimsleikana og að það sé í raun ekki toppurinn á tilverunni eins og margir halda.

„Fólk trúir því ekki þegar ég segi þetta. Þau halda það að vinna heimsleikana sé það besta í heimi. Þau halda að það sé toppurinn á tilverunni og þar upplifir þú hámarksánægju. Það er ekki þannig,“ sagði Katrín Tanja Davíðsdóttir í heimildarmyndinni Gamesbound.

Ben Bergeron, þjálfari Katrínar Tönju, bendir á þetta viðtal á Instagram síðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan.







„Það er frábær stund að vinna heimsleikana og ég get ekki einu sinni lýst tilfinningunni. Það sem skiptir mig meira máli er þó ferðalagið að baki sigrinum og fólkið sem hjálpaði mér að ná þangað,“ sagði Katrín Tanja.

„Að vinna heimsleikana í CrossFit er meira staðfesting á því sem þú gerðir til að komast þangað,“ sagði Katrín Tanja.

„Þú vinnur ekki heimsleikana á einum tímapunkti. Það tekur mörg, mörg ár að komast á toppinn. Með því að hafa vini þína með þér á þeirri leið og að fá að gera allt með liðinu þínu skiptir öllu máli. Ég vann að þessu markmiði með þjálfaranum mínum, umboðsmanninum mínum, fjölskyldu minni og bestu vinum. Allt í einu uppsker maður fyrir alla þessa vinnu,“ sagði Katrín Tanja.

„Þegar allt á er botninn hvolft þá snýst þetta ekki um endastöðina heldur miklu meira um ferðalagið þangað. Ef þú elskar ekki ferðalagið þá mun endastöðin ekki gera þig ánægða heldur,“ sagði Katrín Tanja.

Það má sjá brot úr viðtalinu við hana hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×